spot_img
HomeFréttirBenedikt: Okkar bíður erfitt verkefni

Benedikt: Okkar bíður erfitt verkefni

Þór Þorlákshöfn vann í kvöld sinn fyrsta sigur í deildarkeppni úrvalsdeildar í Stykkishólmi. Þórsarar mættu þá Snæfell í sannkölluðum toppslag og komust tveimur stigum fram úr Hólmurum og verma toppinn í Domino´s deildinni með Grindavík yfir jólahátíðina. Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs var að vonum sáttur með sigurinn í kvöld og sagði sína menn hafa átt góðan dag sóknarlega.
 
,,Við vissum alveg fyrir leikinn að það hafi gengið erfiðlega hjá okkur í Stykkishólmi til þessa enda Snæfell sterkir á heimavelli. Við erum nú í því erfiða verkefni að reyna að sækja tvo sigra í röð þarna,” sagði Benedikt en Þór mætir aftur í Stykkishólm á sunnudag til að leika gegn Snæfell í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins. ,,Vissulega var það gott að ná sigri í þessum leik en við verðum að halda áfram og reyna við sigur þarna á sunnudag þó það hljómi nú ekkert auðveldlega en við höfum þó sýnt okkur það að við getum unnið í Hólminum.”
 
Í tengslum við leikinn í kvöld, hvað var það sem gerði útslagið?
,,Við áttum góðan leik sóknarlega, hittum vel og slúttuðum sóknum okkar mjög vel. Við náðum tíu stiga áhlaupi í lok þriðja þar sem við komumst sex stigum yfir og svo setur Flake ótrúlega körfu frá miðju og fær víti að auki, fjögur stig og ég bara hef ekki séð svona áður. Við náðum þarna tökum á þessu en Snæfell kom samt með áhlaup í lokin en við héldum þetta út,” sagði Benedikt en framundan er annar stórslagur þessara liða í bikarnum á sunnudag.
 
,,Nú einbeitum við okkur bara að sunnudeginum, við þiggjum þessi stig en annað og erfitt verkefni bíður okkar.”
 
Mynd/ Eyþór Benediktsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -