spot_img
HomeFréttirSérstök stemmning að lýsa leik á jóladagskvöld

Sérstök stemmning að lýsa leik á jóladagskvöld

Í NBA deildinni í körfubolta hefur fyrir löngu myndast sterk hefð fyrir því að hafa stórleiki á dagskrá á jóladag. Árið 2012 er sannarlega engin undantekning en þá fara fram fimm bitastæðir leikir þar sem rúsínan í pylsuendanum er viðureign Miami og Oklahoma – liðanna sem léku til úrslita um titilinn í vor.
 
Þessi leikur verður einmitt jólaleikurinn á Stöð 2 Sport í ár, en þar hefur einnig myndast hefð fyrir því að sýna leik fljótlega eftir að landinn er búinn að renna niður jólasteikinni. Það verður Baldur Beck sem sér um að lýsa leiknum og við ákváðum að heyra aðeins í honum hljóðið í jólaösinni en Baldur er ritstjóri okkar ástsælu vefsíðu NBA Ísland.
 
,,Jú, það er rétt. Við hringjum inn jólin með rosalegum leik eins og undanfarin ár. Það vill svo skemmtilega til að í þessum töluðu orðum eru Miami og Oklahoma einmitt í efstu sætunum í Austur- og Vesturdeildinni og því er ekki hægt að kalla þetta annað en risaslag. Það er sérstök stemning að lýsa körfuboltaleik á jóladagskvöld. Ég er búinn að gera þetta undanfarin ár og þetta er eiginlega orðinn fastur partur af jólahefðinni. Það eru auðvitað forréttindi að fá að taka þátt í þessari skemmtun,” segir Baldur.
 
En hvernig hefur liðunum tveimur sem mættust í úrslitunum í fyrra vegnað á þessari leiktíð að mati Baldurs?
 
,,Miami hefur byrjað leiktíðina nokkuð rólega en er hægt og bítandi að skrúfa upp varnarleikinn. LeBron James hefur að venju verið stórkostlegur og farið fyrir liðinu, en við megum ekki gleyma framlagi Ray Allen af bekknum. Hann gerir Miami liðið alveg baneitrað. Miami er nýbúið að ná efsta sætinu í Austurdeildinni af New York og ég á ekki von á því að það láti hana af hendi aftur í vetur.
 
Oklahoma hefur verið á mjög góðri siglingu í Vesturdeildinni og fær verðuga samkeppni frá Clippers, Memphis og San Antonio. Ég hugsa að það verði Oklahoma sem kemur til með að vinna flesta leiki í Vesturdeildinni í vetur og byggi það á nokkrum góðum rökum. Í fyrsta lagi eru þeir Kevin Duran og Russell Westbrook orðnir enn betri, en Serge Ibaka hefur tekið stærsta stökkið af öllum ungu mönnunum í Oklahoma-liðinu. Svo verður auðvitað að þakka Kevin Martin fyrir að fylla skarðið sem James Harden skildi eftir sig með sóma. Ég held að flestir tippi á að það verði endurtekið efni í úrslitaeinvíginu næsta sumar og það verði Miami og Oklahoma sem berjist um titilinn.”
  
Mynd/ Baldur í ,,aksjón” en kappinn verður með uppbrettar ermar á jóladagskvöld þegar meistarar Miami og Oklahoma leiða saman hesta sína.
Fréttir
- Auglýsing -