Ólafur E. Rafnsson er önnum kafinn maður en hann er forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, forseti FIBA Europe og einn af eigendum að lögmannsstofu í Hafnarfirði. Ólympíuárinu 2012 er að ljúka, FIBA Europe varð að skipta um framkvæmdastjóra og baráttan um fjármagnið fer fram hérlendis jafnt sem erlendis. Ólafur E. Rafnsson er viðmælandi Karfan.is í jólaviðtalinu 2012.
Viltu gefa okkur smá innsýn í hvernig það var að taka ákvörðun um að fara fram til forsetaembættis FIBA Europe, hvernig kosningabaráttan hafi gengið fyrir sig og svona fyrstu dagarnir í embætti.
Þetta var auðvitað stór persónuleg ákvörðun á sínum tíma, og kom í kjölfar hvatningar nokkurra þjóða og einstaklinga sem höfðu setið í stjórn með mér undanfarin ár á undan. Ég kannaði stuðning, einkum meðal stærri þjóðanna, og taldi að ég ætti prýðilegan möguleika á grundvelli þess, þar sem smærri og millistórar þjóðir, ásamt traustum stuðningi þjóða einkum í vesturhluta Evrópu sem voru mér vilhallar. Þegar á reyndi lærði maður svo auðvitað að ekki er allt sem sýnist, og valdaátök á bak við tjöldin meiri en ég hafði gert mér grein fyrir. Ég hygg að ég hafi jafnframt notið góðs af hlutleysi smáþjóðar á þeim tíma, þótt ég hafi gjarnan verið minntur á þann bakgrunn síðar þegar stórar og erfiðar ákvarðanir hafa verið uppi á borðinu.
Framkvæmdastjórnin er býsna fjölmenn, eða 25 manns, svo fjölbreytni persóna og hagsmuna er mikil. Auk þess starfar góður og samhentur hópur fólks í höfuðstöðvunum í München í Þýskalandi, og er að finna a.m.k. 18 þjóðerni meðal starfsmanna sambandsins.
Hver hafa stóru málin verið sem þú hefur unnið að hjá FIBA Europe og hvað er svona mest spennandi og krefjandi framundan?
Stærstu málin til að byrja með voru að gera endurbætur á Evrópukeppni landsliða, einkum í formi þess að stækka úrslitakeppni karla úr 16 liðum í 24 lið, ásamt því að heimila fleiri en einni þjóð að skipuleggja EuroBasket sameiginlega. Í framhaldi þess hófum við útboðsferli fyrir mótin 2013 og 2015, en það hafði verið vanrækt um skeið af vissum ástæðum og þau mál komin í nokkuð tímahrak. Samhliða því gerðum við talsverðar breytingar á fjárhagslegum skilmálum fyrir bjóðendur sem auka eiga tekjur FIBA Europe talsvert, en það hefur verið gagnrýnt að bratt hafi verið farið í þær breytingar í miðri fjárhagskreppu. Ennfremur gerðum við samninga við Alþjóðakörfuknattleikssambandið – FIBA – um sjónvarps- og markaðsréttindi fram yfir mótin árið 2015, og sömdum við þar um áður óþekktar fjárhæðir, þótt samningar séu nokkuð bakhlaðnir og eiga eftir að tryggja talsverðar tekjur á næstu árum.
Flækjur í tengslum við Evrópukeppni félagsliða er nokkuð sem við fengum í arf og á sér forsögu í aðskilnaði EuroLeague frá FIBA í kringum síðustu aldamót. Auk umtalsverðs tekjutaps fyrir FIBA Europe og einstök aðildarsambönd hefur þetta leitt af sér mikla flækju deilda innan álfunnar, svo ekki sé minnst á NBA deildina sem hefur auðvitað mikil áhrif í Evrópu líka. Samskipti við alla þessa aðila hafa í sjálfu sér verið mjög góð, en stærstu ágreiningsmálin lúta annarsvegar að því að við erum að reyna að knýja fram glugga fyrir landsliðsverkefni okkar innan keppnistímabils félagsliða og hinsvegar um aðgang að leikmönnum í landsliðsverkefni, sem á eftir að verða erfiðara í komandi framtíð vegna mikils álags leikmanna og kostnaðar við trygginga- og launagreiðslur sem hlaupa á mjög háum fjárhæðum í hverju verkefni. Bara tryggingariðgjöld hlaupa á hundruð milljónum króna í hverju móti.
Að lokum má svo nefna eitt stærsta ágreiningsefni innan Evrópu í dag sem eru breytingar FIBA á fyrirkomulagi og keppnisdagatali alþjóðakeppni sem felst í því að efla Heimsmeistaramótið á kostnað álfukeppnana, en þó samhliða því að mögulega ná lausnum á alþjóðlegum gluggum fyrir landslið á keppnistímabili félagsliða og endurnýjun á samkomulagi við NBA um aðgang að leikmönnum, sem engan veginn er sjálfgefið ef höfð eru í huga viðhorf og nýleg ummæli tiltekinna eigenda NBA liða. Þetta kemur sér hinsvegar afar illa fyrir FIBA Europe þar sem langstærsti einstaki tekjuliður okkar – EuroBasket – yrði samkvæmt þessu einungis á fjögurra ára fresti í stað tveggja. Höfum við mótmælt þeim breytingum og teljum þær of áhættusamar og skaðlegar fyrir Evrópu, og talaði ég harkalega gegn þeim hluta breytinganna á stjórnarfundi FIBA í Kuala Lumpur í nóvember þar sem þessar áætlanir voru staðfestar. Þessar deilur eru svo að nokkru leyti bakgrunnur að vissum klofningi innan Evrópu sem ekki sér fyrir endann á, en hafa ber í huga að breytingarnar taka ekki gildi fyrr en árið 2019.
Þú hefur væntanlega hitt ógrynni af fólki bæði við störf þín sem forseti ÍSÍ og FIBA Europe…það sem körfuknattleiksfólk vildi vísast vita er hvernig umhverfið í aljþóðaboltanum birtist þér og hvort einhverjir skemmtilegir karakterar standi upp úr.
Jú, það verður víst seint sagt að maður hafi ekki fengið tækifæri til að hitta mikið af athyglisverðu fólki á þessari vegferð, hvort heldur er á vettvangi ÍSÍ eða FIBA Europe. Ég veit í sjálfu sér ekki hvort rétt sé að draga einhverja einstaklinga út úr því mengi sem skemmtilegri karaktera en aðra – en þetta er fjölbreytt flóra frá því að vera afreksíþróttamennirnir sjálfir til þjóðhöfðingja og pólitíkusa. Ég held að persónuleikarnir spanni allt sviðið hvort heldur sem er í þorpi úti á landi á Íslandi eða stórborgum erlendis, þetta snýst allt um að njóta þess almennt að eiga samskipti við fólk sem er að sinna sínu áhugamáli, íþróttum. Meira að segja viðfangsefnin eru oft keimlíkari en ætla mætti, þótt fjárhæðir, stærðir og hagsmunir séu ólíkir.
Peningamálin hafa verið mikið til umræðu hérlendis og við vitum að körfuknattleiksfólk horfir öfundaraugum til þess sem fótboltanum tekst að gera, þ.e. háar greiðslur til t.d. félaga sem taka þátt í Evrópukeppnum. Er FIBA Europe eitthvað í stakk búið til að taka þátt í að styrkja fjárhagslegan bakgrunn félagsliða?
Þetta er auðvitað fullkomlega eðlileg umræða. Hafa ber í huga að í Evrópu er knattspyrnan töluvert stærri en körfuknattleikur, og fjárhagsleg úrræði afar ólík. Stafar það af ýmsum orsökum en stærð og vinsældum, svo sem þeim klofningi sem varð á vettvangi félagsliða fyrir hálfum öðru áratug með því tekjutapi sem af því leiddi. En við höfum eins og fyrr segir aukið tekjur FIBA Europe talsvert með samningunum um sjónvarps- og markaðsmál sem við gerðum fyrir tæpum tveimur árum, en stærsti hluti þeirrar aukningar á að skila sér á árunum 2013-2015.
Engin önnur íþróttagrein en knattspyrna hefur haft burði til þess að fjárfesta í sínum aðildarríkjum í teljandi mæli, en geta má þess að fyrir 5-6 árum síðan þegar ég átti sæti í fjárhagsnefnd sambandsins lagði ég til fyrsta fjárstuðning FIBA Europe til aðildarríkja í sögunni, og naut KKÍ góðs af því, og hefur raunar fengið framlög til viðbótar síðan þá. Það er á stefnuskrá minni að efla stuðning umtalsvert við smærri og miðlungsstórar aðildarþjóðir, en hafa þarf í huga að ekki er einhugur um þann stuðning meðal stærri þjóðanna, sem þrátt fyrir allt eru uppruni þess fjármagns beint og óbeint. Þá kemur hér líka til óvissa vegna ytri forsendna í formi breytinga FIBA á alþjóðakeppnisdagatalinu og þeirra áhrifa sem það kann að hafa á tekjur FIBA Europe í framtíðinni.
Ísland er ekki eina þjóðin í álfunni í peningavandræðum. Fjárhagskreppan hefur bitið harkalega víða samhliða auknum kostnaði, og við fáum verulega fleiri beiðnir um aðstoð. Sem stendur greiðum við talsvert af föstum kostnaði sem ekki er alltaf sýnilegur, og má þar sem dæmi nefna að við greiðum hátt í 200 milljónir í tryggingar fyrir alla leikmenn sem leika með landsliðum innan Evrópu, að undanskildum leikmönnu frá NBA deildinni, og einnig greiðum við á þriðja hundrað milljónir á ári í framlög til þeirra þjóða sem halda okkar árlegu mót yngri landsliða á 14-16 stöðum í Evrópu á hverju ári. Auk þess má nefna umfangsmikið styrkjaprógramm í þjálfunar- og dómaramálum, hina vaxandi 3á3 keppni, auk almennra þróunarstyrkja sem nefndir voru hér að framan.
Greiðslur til félagsliða eru hinsvegar klárlega ekki á dagskrá að óbreyttu, enda eru hvorki EuroLeague né EuroCup rekin af FIBA Europe. Stærstu tekjur félagsliðahlutans á heimsvísu koma frá NBA deildinni, og þegar nefnt er að knattspyrnan beri höfuð og herðar yfir aðrar íþróttagreinar í Evrópu þá er ef til vill vert að hafa í huga að velta NBA er u.þ.b. tvöfalt meiri en UEFA. Evrópsk félagslið eða aðildarríki njóta hinsvegar ekki góðs af þeim tekjum, en ýmsar athyglisverðar hugmyndir hafa hinsvegar verið settar fram um aukið samstarf FIBA og NBA sem til lengri tíma litið geta falið í sér mikla möguleika á markaðssetningu körfuknattleiks um allan heim, en það er að vísu ekki tímabært að fara nánar út í þá sálma hér að svo stöddu.
Framtíð þín hjá FIBA Europe, sækist þú eftir áframhaldandi setu sem forseti sambandsins?
Ég á eftir rúmt ár af kjörtímabili mínu, og það má segja að undanfarnir mánuðir hafi verið býsna stormasamir fyrir mig. Þetta tengist að nokkru leyti þeim bakgrunni samskipta við FIBA og að hluta til klofningi í vissum málum meðal stóru þjóðanna á grundvelli þess, sem í kjölfarið leiddi til þess í maí að við riftum samningi við framkvæmdastjóra okkar til síðustu 10 ára. Var ég þá kominn í þá stöðu að sinna hans hlutverki líka, og gegndi bæði stöðu forseta og framkvæmdastjóra í sex mánuði þar til við lukum ráðningu nýs framkvæmdastjóra fyrir fáeinum vikum síðan. Þetta hefur ekki verið auðvelt, og ljóst að ég mun aldrei fara í gegnum slíkt tímabil aftur ef ég get komist hjá því, enda var ég að sinna þessu samhliða starfinu á lögmannstofu minni og hlutverki sem forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Það er engum greiði gerður til lengri tíma að ná hvergi að helga sig sínu hlutverki að fullu.
Það eru dómsmál í gangi ytra, bæði vegna riftunar samnings við framkvæmdastjórann sem og kröfu nokkurra aðildarríkja um breytingar. Það er talsverð pólitísk vinna framundan við að greiða úr þeim málum og lægja þær pólitísku öldur sem risið hafa, en á sama tíma krefjandi verkefni að halda áfram að vinna að lausnum félagsliðamótanna með EuroLeague og berjast fyrir stöðu Evrópu á vettvangi alþjóðasambandsins. Ég held að það sé á engan hátt tímabært að ræða framtíðina til lengri tíma undir þessum kringumstæðum, en ljóst verður að ég mun ávallt taka hagsmuni þeirra samtaka sem ég starfa fyrir fram yfir mína persónulegu hagsmuni.
(Ólafur við verðlaunaafhendingu í störfum sínum sem forseti FIBA Europe)
Áfram að peningamálum og nú hér innanlands, íþróttahreyfingin hefur látið í sér heyra og á fjárlögum standa til aukin framlög. Eru þau nóg og hvað fannst forsvarsmönnum íslenskrar íþróttahreyfingar að samhliða gjörningur yfirvaldi hafi verið sá að auka framlag til heiðurslauna listamanna um 40mill kr?
Ég hef ávallt verið andvígur því að stilla upp íþróttum og listum sem andstæðum. Heiðurslaun listamanna er besta mál fyrir þá sem þeirra njóta, en málið mætti fremur snúast um það hvort við ættum ekki með sambærilegum hætti að sýna okkar fremsta afreksfólki í íþróttum ámóta virðingu.
Við hjá ÍSÍ höfum ekki verið sátt við hlut íþróttahreyfingarinnar í framlögum ríkisvaldsins samkvæmt fjárlögum, og teljum að við höfum borið skarðan hlut frá borði. Framlög til íþróttamála eru innan við hálft prósent af framlögum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, og við teljum að ef allar aðstæður eru metnar þá hafi niðurskurður núverandi ríkisstjórnar til íþróttamála verið langtum meiri en til flestra annarra málaflokka ef litið er til þess hvernig spilin hafa verið gefin.
Á sama tíma hafi okkar afreksfólk í senn sýnt afburðaárangur á alþjóðavísu og verið æsku landsins góðar og nauðsynlegar fyrirmyndir á erfiðum tímum. Niðurskurður framlaga til afreksstarfs í dag felur í sér skaða sem kemur ekki fram fyrr en að nokkrum árum liðnum, og það kann að vera þægilegt fyrir stjórnmál nútímans að velta þannig afleiðingum niðurskurðar yfir á framtíðina, fram á næsta kjörtímabil. Við teljum það hinsvegar ábyrgð hvers stjórnmálamanns að tryggja viðvarandi íþróttaafrek íslenskra keppenda, og að þjóðin – þar með talið stjórnmálamenn – fái tækifæri í framtíðinni til að fagna við heimkomu þeirra eftir árangur á alþjóðavettvangi.
Ég óttast það mest að við eigum eftir að missa af verðlaunum á alþjóðavettvangi í formi þess að lítil klásúla birtist í íþróttakálfi fjölmiðla þar sem upplýst var um að ung upprennandi íþróttastjarna hafi ákveðið að hætta vegna skorts á stuðningi – nokkuð sem kann ekki að vekja svo mikla athygli þar sem viðkomandi er enn ekki orðinn þekktur einstaklingur, en gæti svo sannarlega staðið á verðlaunapalli ef rétt hefði verið á málum haldið.
Mennta- og menningamálaráðuneytið kynnti fyrir okkur Íþróttastefnu ríkisins fyrir ári síðan, sem er hið ágætasta plagg, og höfum við unnið að því að setja okkur markmið á grundvelli hennar. Það að fylgja þeirri stefnu ekki eftir með viðeigandi fjárframlögum og beinum stuðningi þýðir í reynd að plaggið verður nokkuð innihaldslaust. Það er auðvitað óásættanlegt til framtíðar.
Hver telur þú að ástæðan sé fyrir því að íþróttahreyfingin á Íslandi hafi búið við jafn langt fjársvelti og raun ber vitni?
Þetta er auðvitað engan veginn auðveld spurning né til staðar einföld svör. Íþróttahreyfingin er í eðli sínu sjálfboðaliðahreyfing, og eflaust hefur það átt sinn þátt í því að það teljist eðlilegt að öll vinna sé unnin endurgjaldslaust á sama tíma og flestar ríkisreknar menningarstofnanir hafa stækkað verulega sína útgjaldaliði á undanförnum áratugum með nokkrum sjálfkrafa hætti. Þegar kreppan skall á var ekki mikið kjöt á beinum til að skera niður, enda erfitt að lækka sjálfboðaliða mikið í launum.
Spilin voru gefin þannig að íþróttahreyfingunni hefur verið gert að byggja rekstur sinn á sjálfsaflafé með félagsgjöldum iðkenda og samningum við atvinnulífið. Þessar stoðir hrundu að stóru leyti við efnahagshrunið 2008 samhliða verulega auknum kostnaði í formi skattahækkana og gengisþróunar, sem reynst hefur afreks- og alþjóðastarfi afar erfitt. Það má því segja að sá grunnur sem íþróttahreyfingin byggði á við hrunið hafi verið afar óhagstæður, og afleiðingarnar einfaldlega orðið samdráttur í íþróttalegri starfsemi sem ekki kemur fram í fjárhagslegum uppgjörum.
Við höfðum reyndar á árunum 2006-2007 gert samninga um fyrstu föstu framlögin til sérsambanda innan ÍSÍ og um sjóð til greiðslu ferðakostnaðar innanlands, en í stað þess að þeir samningar yrðu efndir samkvæmt orðanna hljóðan voru þeir skornir niður – þ.e. þróun þeirra varð í þveröfuga átt við það sem samið var um. Vorum við afar ósátt við það, og höfum lagt hart að stjórnvöldum að leiðrétta það. Svo er það auðvitað Afrekssjóður, þar sem við gerðum síðast samning árið 2003, sem var 30 milljóna króna samningur sem rann út í árslok 2008 – eins heppilegt og það nú síðar reyndist.
Ég hef orðið var við að að það er umtalsverður misskilningur í samfélaginu á því hversu mikil fjárframlög renna til íþróttarheyfingarinnar frá ríkisvaldinu, og verða margir undrandi þegar þeir raunverulega sjá þær fjárhæðir og setja í samhengi við umfang og stærð starfsemi þessarar stærstu fjöldahreyfingar landsins. Þetta leiddi til þess að fyrir nokkrum árum lagði ég fram hugmyndir á formannafundi ÍSÍ um að ímyndar- og kynningarmál hreyfingarinnar yrðu tekin fastari tökum og færð nær skilgreindri kjarnastarfsemi, og var vinnuhópur skipaður í kjölfarið til að bæta úr þeim málum.
Ekki má þó líta svo á að allt sé alvont í fjárhagslegu umhverfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Vil ég þar í fyrsta lagi nefna lottóið sem hefur reynst afar vel rekið á undanförnum árum í samstarfi við Ungmennafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands, og svo hinsvegar sveitarfélögin í landinu sem þrátt fyrir niðurskurð í kjölfar efnahagshruns hafi reynt að standa vörð um þá áfanga sem hafa náðst með niðurgreiðslu æfingagjalda yngstu iðkenda – sem og þeirrar myndarlegu uppbyggingar íþróttamannvirkja sem átt hefur sér stað undanfarna tvo áratugi, þótt sú þróun hafi nær stöðvast á síðustu fjórum árum. Það er fyrst og fremst ríkisvaldið sem hefur ekki staðið sig í stykkinu að mínu mati.
Sem fyrrverandi formaður KKÍ er ekki hægt að sleppa þér inn í jólin öðruvísi en að fá þína sýn á stöðu mála í íslenskum körfuknattleik. Hvernig finnst þér landið liggja og hvað sérð þú í fljótu bragði að mætti gera betur?
Ég átti afar ánægjulegan tíma hjá KKÍ og naut forréttinda að þjóna þar með ýmsu frábæru fólki í 16 ár. Mér finnst alltaf ánægjulegt þegar ég fæ sendar hlýjar kveðjur frá gömlum félögum í hreyfingunni sem fylgjast enn með því sem maður er að gera, eða að hitta gamla félaga sem maður hefur kannski ekki rekist á síðan á ársþingi eða lokahófi fyrir mörgum árum, svo ekki sé minnst á leikmenn sem maður spilaði gegn á síðustu öld. Mér þykir afar vænt um þennan hlýhug sem ríkir innan íslenskrar körfuboltahreyfingar. En það er auðvitað dapurlegt að viðurkenna þá staðreynd að vegna framangreinds annríkis hefur maður haft alltof lítinn tíma til að fylgjast nægilega vel með körfuboltanum hér heima undanfarið. Þó er ég duglegur að fara á leiki hjá meistaraflokki kvenna þar sem dóttir mín er að spila, en auk þess lagði ég mig fram um að sjá sem flesta leiki íslenska karlalandsliðsins í undankeppni Evrópumótsins í sumar, eins og raunar alla landsleiki Íslands í hvaða íþróttagrein sem er.
Annars fylgist ég almennt prýðilega vel með öllum íslenskum íþróttum í gegnum fjölmiðla, og verð að segja að ég er býsna stoltur af því hvernig körfuknattleikshreyfingin hefur haldið á sínum spilum í erfiðu áferði. Ég er ávallt í afar góðum samskiptum við félaga mína hjá Körfuknattleikssambandi Íslands og tel að Hannes Jónsson sé að stýra skútunni þar af miklum myndugleika. Hann hefur haft kjark til að taka erfiðar, en eflaust nauðsynlegar, ákvarðanir vegna ytri fjárhagsaðstæðna, og ég þekki það af reynslu að slíkar ákvarðanir kalla á mikil samskipti og útskýringar sem nauðsynlegt er til að halda einingu í hreyfingunni að baki erfiðum ákvörðunum. Slík eining er KKÍ mikilvæg.
Ég vona sannarlega að hið nýja keppnisfyrirkomulag innan Evrópu opni augu manna fyrir þeim möguleikum sem opnast kunna fyrir litla Ísland í framtíðinni, bæði íþróttalega og fjárhagslega. Við sáum marga frábæra leiki gegn afar sterkum liðum í undankeppninni í sumar, og liðið sýndi að það á fullt erindi í keppnina og getur með raunhæfum hætti á einhverju árabili átt möguleika á að komast í 24 liða lokakeppnina. Mikilvægt er að almenningur, fjölmiðlar, stuðningsaðilar – og ef til vill umfram allt körfuknattleikshreyfingin sjálf – geri sér grein fyrir þeim möguleikum, og hvað það þýðir að komast í lokakeppni Evrópukeppninnar.
Að öðru leyti rata allar ábendingar mínar um það sem betur má fara hjá KKÍ beint í þeirra eyru og ég trúi því að allir hafa skilning á því að þau samskipti verða uppbyggilegri með þeim hætti en í gegnum fjölmiðla – jafnvel þótt um sé að ræða jafn frábæran körfuboltamiðil og karfan.is sannarlega er.
Að lokum…
Um leið og ég vil óska ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs þá finnst mér alveg mega koma fram að karfan.is er einn af uppáhaldsmiðlum forseta Evrópska körfukattleikssambandsins.
Viðtal: Jón Björn Ólafsson