spot_img
HomeFréttirHaukar stöðva sigurgöngu Keflavíkur

Haukar stöðva sigurgöngu Keflavíkur

Keflavík tók á móti Haukum í fyrstu viðureign sinni eftir gott jólafrí í 15. umferð Dominosdeildar kvenna í Toyota höllinni í dag. Keflavík lék án Söru Rúnar Hinriksdóttur og munaði um minna því fyrsta tap Keflavíkur á tímabilinu staðreynd þar sem þær réðu ekkert við sjóðandi heita Siarre Evans sem setti niður 7 þrista í 9 skottilraunum í 61-73 sigri Hauka.
 
Byrjunarlið Keflavíkur: Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Ingunn Embla Kristínardóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir og Jessica Ann Jenkins.
 
Byrjunarlið Hauka: Auður Íris Ólafsdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, María Lind Sigurðardóttir og Siarre Evans.
 
Keflavík byrjaði leikinn með því að komast 6-2 yfir en þá setti Auður Íris Ólafsdóttir niður þrist sem kveikti aldeilis í Haukastúlkum þar sem að þær áttu 10-0 kafla. Ekkert gekk hjá Keflavík nema þegar Haukar klikkuðu algjöralega í varnarvinnunni í “pick & roll”-inu hjá Keflavík og skildu Bryndísi Guðmundsdóttur og Söndru Lind Þrastardóttir eftir á auðum sjó inn í teignum. Það kom ekki að sök hjá Haukum í fyrsta leikhlutanum þar sem að Siarre Evans setti niður hvern þristinn á fætur öðrum, eða þrjá talsins, og leiddu Haukar því 14-22.
 
Haukar byrjuðu annan leikhlutann vel og komust mest 12 stigum yfir í stöðunni 16-28 en þá fóru þær að lenda í villuvandræðum og þriggjastigaskotin hættu að detta og misnotuðu þær öll fjögur skotin sín í leikhlutanum. Á meðan tók Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir leikinn í sínar hendur og skoraði 11 stig í leikhlutanum fyrir Keflavík sem að minnkuðu forskot Hauka hægt og rólega niður í aðeins fjögur stig þegar þær yfirspiluðu þær 13-5 og staðan í hálfleik því 29-33.
Birna var því stigahæst í hálfleik með 15 stig og næst henni komst Evans með 11 stig.
 
Í þriðja leikhlutanum var Sandra Lind Þrastardóttir drjúg fyrir Keflavík þar sem hún hélt áfram að sleppa í opin sniðskot þegar Haukar fóru illa að ráði sínu í varnarvinnunni gegn “pick & roll” kerfi Keflavíkur. Ingunn Embla Kristínardóttir setti einnig tvo góða þrista niður fyrir Keflavík í leikhlutanum og þar af seinustu stig leikhlutans sem komu Keflavík yfir í stöðunni 48-45 í fyrsta skiptið síðan í stöðunni 6-5, en Keflavík gjörsamlega yfirspilaði Hauka seinustu sex mínúturnar 15-2.
 
Siarre Evans byrjaði af krafti í fjórða leikhlutanum og jafnaði leikinn í 48-48 eftir aðeins 8 sek. með glæsilegum þrist og það átti sko aldeilis meira eftir að koma frá henni. En Haukar bókstaflega kafsigldu Keflavík í fjórða leikhlutanum 13-28. Ekkert gekk hjá Jessica Ann Jenskins sem reyndi og reyndi að laga stöðuna fyrir Keflavík en misnotaði hins vegar öll fimm þriggjastigaskotin sín í leikhlutanum á meðan að Evans setti öll sín fjögur ásamt sjö öðrum stigum og því með 19 stig alls í leikhlutanum. Þar með nokkuð sannfærandi sigur hjá Haukum 61-73.
 
Stigahæstar hjá Keflavík voru: Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 19 stig/10 fráköst, Jessica Ann Jenkins 11 stig/9 fráköst/4 stoðsendingar, Ingunn Embla Kristínardóttir 9 stig/5 stoðsendingar.
 
Stigahæstar hjá Haukum voru: Siarre Evans 34 stig/14 fráköst/5 stolnir boltar, Auður Íris Ólafsdóttir 9 stig/3 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 9 stig/5 fráköst.
 
Leikmaður leiksins: Siarre Evans
 
 
Mynd/ Eyþór Sæmundsson: Birna Valgarðs fær óblíðar móttökur hjá Siarre Evans.
 
Umfjöllun/ K. Bergmann
 
Fréttir
- Auglýsing -