Stjarnan er komin í undanúrslit Poweradebikarkeppninnar í fyrsta sinn síðan árið 2009 en það árið varð Stjarnan einmitt bikarmeistari eftir sögulegan sigur á KR í Laugardalshöll. ÍR fékk að kenna á mætti Stjörnunnar í dag, eftir jafnan fyrri hálfleik stungu heimamenn af í þeim síðari og áttu fyrir vikið nokkuð náðugan lokasprett í Ásgarði. ÍR-ingar kveðja því bikarinn þetta árið og beina nú sjónum sínum að því að komast inn í úrslitakeppni Domino´s-deildarinnar.
Marvin Valdimarsson var beittur í liði heimamanna á upphafsmínútunum og gerði 8 stig í fyrsta leikhluta. Stjarnan virtist ætla að stinga af snemma en ÍR-ingar lokuðu fyrstu tíu mínútunum vel og staðan 22-21 að þeim loknum. Kumpánarnir Hreggviður Magnússon, Hjalti Friðriksson og Sveinbjörn Claessen hófu leik á bekknum í dag en þeir Þorvaldur Hauksson og Vilhjálmur Jónsson byrjuðu leikinn í þeirra stað ásamt Nemanja Sovic. ÍR fékk þungan skell síðastliðinn föstudag og því ljóst að þjálfarinn Jón Arnar var eitthvað að hrista upp í hlutunum.
Eric Palm var magnaður á báðum endum vallarins í fyrri hálfleik og ÍR-ingar léku aldrei betur en í öðrum leikhluta. Palm kom þeim yfir 28-29 með þriggja stiga körfu og gestirnir leiddu 38-40 í hálfleik. Sterk vörn ÍR í öðrum leikhluta riðlaði sóknarleik heimamanna sem duttu í nokkur sóló verkefni og hittu illa eða 2 af 16 í þriggja stiga í fyrri hálfleik.
Marvin Valdimarsson var með 10 stig í hálfleik hjá Stjörnunni og Eric Palm 12 í liði ÍR. Jovan Zdravevski var ekki að finna fjölina í fyrri hálfleik og brenndi af öllum sex þriggja stiga skotum sínum en hann átti eftir að finna dampinn og lauk leik með 12 stig í dag.
Þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta var staðan 55-55 og virtist allt vera í járnum. Ellert Arnarson fékk um þetta leyti sína fimmtu villu en þó hann hafi ekki verið að skora lék hann sem fyrr sterka vörn og töluvert bit sem fór úr varnarleik gestanna við brotthvarf hans.
Með Ellert utan vallar losnaði aðeins um góðu skotin hjá Stjörnunni og nú fóru þau að detta, eitthvað sem heimamenn áttu inni eftir dapra nýtingu í fyrri hálfleik. Þrír þristar í röð undir lok leikhlutans komu Stjörnunni í 66-58 en sá síðasti var magnaður. Dagur Kár Jónsson stal þá boltanum, brunaði fram völlinn og lét flautuskotið vaða sem lak ofaní og allt að ganga upp hjá heimamönnum.
Stjarnan var komin á bragðið og frá lokum þriðja leikhluta og fyrstu fjórar mínúturnar í fjórða leikhluta tóku Garðbæingar 21-6 áhlaup og reyndist það banabiti ÍR-inga. Lokatölur 94-77 og Stjörnumenn komnir með flugmiða inn í undanúrslitin en þar bíða þeirra Grindavík, Snæfell og svo Keflavík eða Njarðvík sem mætast á þriðjudag. ÍR er því þriðja úrvalsdeildarliðið sem Stjarnan afgreiðir í keppninni en fyrst lögðu þeir Skallagrím og þar á eftir KFÍ.
Jarrid Frye gerði 20 stig í liði Stjörnunnar í dag og sýndi á köflum lipra takta, ljóst að þarna fer sterkur leikmaður sem eykur enn á mikla dýpt Stjörnunnar. Hjá ÍR var Eric Palm skeinuhættur sem fyrr með 26 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.