Stórleikur Keflavíkur og Njarðvíkur fer fram í 8-liða úrslitum Poweradebikarsins í kvöld. Fjörið hefst kl. 19:15 og ef einhvern tíman var erindi á Reykjanesbrautina þá er það einmitt núna. Síðast þegar liðin áttust við í deildarkeppninni var það snöggtum fyrir jól og höfðu Njarðvíkingar eins stigs sigur í hádramatískum og framlengdum slag.
Karfan.is setti sig í samband við þrjá spekinga og sitt sýndist hverjum um leik kvöldsins:
Benedikt Guðmundsson – þjálfari Þórs úr Þorlákshöfn
Maður veit aldrei við hverju má búast þegar þessi tvö félög mætast. Úrslitin hafa oft verið út og suður í þessum nágrannaslag. Ef Njarðvíkingar verða miðherjalausir í kvöld sé ég fyrir mér auðveldan heimasigur en verði Marcus Van og Friðrik með þá verður þetta hörku leikur sem gæti farið aftur í framlengingu. Keflvíkingar verða þó að teljast líklegri.
Eyþór Sæmundsson – blaðamaður hjá Víkurfréttum
Það er gaman að því þegar hitnar í kolunum í El Classico og vonandi verður sú raunin í kvöld. Ég vona að ungu strákarnir hjá Njarðvík mæti með baráttu svo að úr verði alvöru leikur, því vissulega verður erfitt fyrir þá ef Friðrik og Marcus verða fjarverandi. Bikarleikir sem þessir eru tilvalið svið fyrir upprennandi leikmenn og nú er bara að sjá hverjir láta ljós sitt skína í Sláturhúsinu. Ég spái stórskotahríð þar sem Ágúst Orrason og Magnús Gunnarsson verða í aðalhlutverki. Það verður svo spennandi að sjá Baptist hjá Keflavík en Magnús Gunnarsson ber honum vel söguna. Ég ætla að gerast svo frakkur að spá fremur óvæntum sigri Njarðvíkinga í hnífjöfnum leik.
Hörður D. Tulinius – einráður og alvaldur á ruslid.blogspot.com
Keflvíkingar eru að hitna aftur eftir að hafa tapað þremur fyrstu leikjum sínum deildinni og hafa nú unnið 6 af síðustu 8 leikjum sínum. Töpuðu þó naumlega fyrir Njarðvík á heimavelli í desember þannig að þeir eiga harma að hefna. Tölfræðin segir að 56,2% líkur eru á sigri Keflvíkinga og vegur heimavöllurinn þar þyngra þar sem liðin eru mjög svipuð bæði í styrkleikamati Four Factors og einnig í spálíkani CGM, þó Njarðvík sé ívið sterkara í tölum. Keflvíkingar koma í þennan leik eftir stórsigur á ÍR á útivelli en Njarðvíkingar eftir 34 stiga tap gegn Snæfelli á eigin heimavelli. Ég spái Keflavík sigri í þessum leik.