Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Keflavíkur og Njarðvíkur í lokaleik 8-liða úrslitanna í Poweradebikarkeppni karla. Þegar eru Grindavík, Snæfell og Stjarnan komin áfram og bíða í dráttarskálinni góðu eftir öðru hvoru liðinu úr Reykjanesbæ.
Keflavík er komið í undanúrslit Poweradebikarkeppninnar eftir 102-91 sigur á Njarðvík í lokaleik 8-liða úrslita í keppninni. Keflvíkingar voru ávallt skrefi á undan Njarðvíkingum í leiknum og uppskáru verðskuldaðan sigur. Viðureign kvöldsins var skemmtileg áhorfs, mikill hraði, hart barist og í raun boðið upp á flest það sem fólk væntir úr þessum rimmum. Hér að neðan fer textalýsing leiksins og við látum hana standa sem okkar umfjöllun um herlegheitin sem fram fóru í Toyota-höllinni í kvöld.
Keflavík-Njarðvík 102-91 (28-27, 27-14, 16-19, 31-31)
Keflavík: Michael Craion 36/15 fráköst/6 stolnir/7 varin skot, Billy Baptist 20/15 fráköst/5 stoðsendingar, Darrel Keith Lewis 17/9 fráköst/10 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 12/4 fráköst, Valur Orri Valsson 9/4 fráköst, Ragnar Gerald Albertsson 8, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Snorri Hrafnkelsson 0, Sigurður Vignir Guðmundsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Andri Daníelsson 0.
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 33, Nigel Moore 18/12 fráköst/5 stoðsendingar/7 stolnir, Marcus Van 15/16 fráköst/3 varin skot, Maciej Stanislav Baginski 15, Ágúst Orrason 6/5 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 2, Friðrik E. Stefánsson 2, Magnús Már Traustason 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0, Brynjar Þór Guðnason 0, Óli Ragnar Alexandersson 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Björgvin Rúnarsson
4. leikhluti
– 102-91 lokatölur – Keflvíkingar komnir í undanúrslit bikarsins!
– 30sek til leiksloka og Njarðvíkursóknin síðasta gekk ekki eftir svo þeir verða að brjóta og gera það með því að senda Craion á línuna sem breytir stöðunni í 98-89…nú er þetta komið í hús endanlega og ríkjandi bikarmeistarar Keflavíkur eru á leið í undanúrslit Poweradebikarsins.
– 97-89 Lewis setur niður tvö víti þar sem Elvar Már braut á honum og grænir gestirnir taka leikhlé. Njarðvíkingar þurfa fátt annað en kraftaverk til að stela þessum sigri…
– 95-89 Craion skorar…Njarðvíkingar brenna af í næstu sókn og Keflavík dæmdur boltinn þegar 42 sek eru til leiksloka…Keflvíkingar eru að komast hér í undanúrlsitin.
– 93-89 Elvar með þrist! og 1.00mín eftir! Hér er allt á suðupunkti
– 92-84 og 2.10mín eftir af leiknum. Lewis á 2 víti í Keflavíkurliðinu eftir að Ágúst Orrason gerðist brotlegur…brennir af fyrra vítinu en setur það síðara og staðan 93-84.
– Elvar Már heldur á línuna fyrir Njarðvíkinga en kappinn hefur átt stórgóðan leik í kvöld…setur bæði vítin og er kominn með 30 stig!
– 92-82 Marcus Van með svaðalega troðslu og skömmu síðar fýkur Valur Orri útaf með sína fimmtu villu sem Keflvíkingar eru ekki sáttir með…leikhlé og 2.52mín eftir.
– 92-79 Magnús Þór með Keflavíkurþrist og 3.21mín til leiksloka.
– 89-79 og 4.10mín til leiksloka þegar liðin skiptast á sínum hvorum þristinum en þar voru Valur Orri og Elvar Már að verki.
– Elvar Már farinn að skrúfa upp hitann í kringum Val Orra og búinn að þvinga hann í nokkur mistök…var enda við að stela af honum boltanum og því lauk með að Njarðvíkingar vildu óíþróttamannslega villu á Magnús Þór Gunnarsson en fengu ekki. Staðan 85-74 og 5mín til leiksloka.
– 85-69…Keflavík með stolinn bolta sem endar á Craion-troðslu en maðurinn hefur verið ódrepandi á báðum endum vallarins – kominn með 28 stig og 12 fráköst!
– 83-69 fyrir Keflavík og 6.00mín til leiksloka…nú fer hver að verða síðastur að gera þetta að leik.
– 79-67 Baginski með Njarðvíkurþrist…grænir svara brotthvarfi Friðriks með 2-5 rispu og Keflvíkingar taka leikhlé. 7.39mín eftir af fjórða leikhluta.
– 77-62 og 6-2 byrjun Keflavíkur á fjórða leikhluta og umtalsverð brekka framundan hjá Njarðvíkingum ef þeir ætla að naga sig nærri gestgjöfum sínum.
– Hér hefur heldur betur dregið til tíðinda…verið var að henda Friðriki Erlendi Stefánssyni út úr húsi eftir samskipti hans við Val Orra Valsson! Friðrik var afar óhress með að hafa ekki fengið villu í Njarðvíkursókn og braut á liðsmanni Keflavíkur fyrir vikið og átti svo í útistöðum við Val Orra. Eftirmálarnir voru þeir að Björgvin Rúnarsson annar tveggja dómara leiksins sendi Friðrik úr húsi.
– Fjórði leikhluti er hafinn og staðan er 71-62…
Elvar Friðriksson gerir tvö síðustu stigin í þriðja leikhluta
__________________________________________________________________________________________________________________________________________
3. leikhluti 71-60
– 71-60 Elvar Már Friðriksson gerir síðustu stig leikhlutans eftir stolinn bolta og hraðaupphlaup…
– 71-58 Njarðvíkingar með 4-0 rispu og 9 sek eftir af þriðja. Keflavík á boltann…
– 71-54 Magnús Þór með Keflavíkurþrist.
– Ragnar Gerald er að nýta sínar mínútur vel í Keflavíkurliðinu í kvöld og kominn með 8 stig inn í leikinn af Keflavíkurbekknum.
– 3mín eftir af þriðja og staðan enn 65-54 og Njarðvíkingar leiða því 10-13 í leikhlutanum sem hefur verið jafn og einkennst af mikilli baráttu. Ljóst að menn eru að selja sig dýrt en í þessari keppni á Keflavík titil að verja sem ríkjandi bikarmeistari eftir sigur á Tindastól í Laugardalshöll í fyrra.
– 65-54 Magnús Þór með glæsilega stoðsendingu á Craion í teignum.
– 61-52 fyrir Keflavík og 4.31mín eftir af þriðja leikhluta.
– Elvar Már Friðriksson að fá sína fyrstu villu í kvöld eftir 25mín leik og stuðningsmenn Keflavíkur fagna ógurlega!
– Rimma Marcus Van og Michael Craion er að verða ansi spennandi hérna, tveir baráttuhundar sem ekki gefa tommu eftir og báðir með fingurna í næstum hverju einasta frákasti sem í boði er.
– 57-48 og 6.57mín eftir af þriðja leikhluta. Njarðvíkingar eru að bíta frá sér og heimamenn taka því leikhlé. Marcus Van hefur komið grimmur inn í þennan síðari hálfleik og var fyrir skemmstu að bjóða upp á krafthúsatroðslu í ,,traffík” í Keflavíkurteignum.
– Það er að hitna í kolunum hérna og Darrel Lewis að komast upp með að húðskamma annan dómara leiksins. Þetta gæti orðið safaríkt á endanum…
– 57-46 og Njarðvíkingar opna síðari hálfleik með 2-5 dembu.
– Þriðji leikhluti er að hefjast…Keflavík vann annan leikhluta 27-14 og staðan eins og áður greinir 55-41 nú þegar síðari hálfleikur er að hefjast.
– Michael Craion er með 16 stig og 8 fráköst hjá Keflavík í hálfleik og Darrel Lewis er með 14 stig og 4 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum er Elvar Már Friðriksson með 15 stig og 2 stoðseningar og Nigel Moore er með 7 stig.
__________________________________________________________________________________________________________________________________________
Darrel Lewis hefur verið fyrnasterkur í liði Keflavíkur í fyrri háflleik
– Skotnýting Keflavíkur í fyrri hálfleik:
Tveggja 68,9% – þriggja 33,3% og víti 71,4%
– Skotnýting Njarðvíkur í fyrri hálfleik:
Tveggja 54,5% – þriggja 25% og víti 50%
– Njarðvíkingar hafa verið duglegir í fyrri hálfleik fyrir utan þriggja stiga línuna, 20 skot og 5 niður. Heimamenn í Keflavík með 12 þrista í fyrri og 4 niður.
___________________________________________________________________________________________________________________________________________
– 2. leikhluti – 55-41
15 sek eftir og Ragnar Gerald mætir með annan þrist og kemur Keflavík í 55-41 sem reynast lokatölur í fyrri hálfleik.
– 48-35 Ragnar Gerald með Keflavíkurþrist og heimamenn eru við það að stinga af ef gestirnir bregða ekki undir sig betri fætinum þessar tvær mínútur sem eftir eru af fyrri hálfleik.
– 45-35 og 3.00mín til hálfleiks. Craion og Lewis hafa verið afar beittir í liði Keflavíkur, bæði í vörn og sókn. Lewis kominn með 12 stig og Craion 14.
– Njarðvíkingar eru að skjóta mikið af þriggja stiga skotum um þessar mundir og í augnablikinu vilja þau ekki niður, Keflvíkingar eru að frákasta vel og eru því komnir með aðra höndina á stýrið eins og stendur.
– 40-31 og 12-4 byrjun Keflavíkur á öðrum leikhluta, Njarðvíkingar taka leikhlé og ráða sínum ráðum.
– 34-31 og Keflavík virðist vera fyrri til að finna taktinn í varnarleiknum og Njarðvíkingar hafa verið í basli með að komast upp að körfunni þessar tæpu fjórar mínútur sem liðnar eru af öðrum leikhluta.
– Valur Orri er að reynast bakvörðum Njarðvíkur illur viðureignar en hann og Lewis hafa leikið sterka vörn til þessa.
– 30-29 Nigel Moore gerir fyrstu stig Njarðvíkur í öðrum leikhluta með stökkskoti í teignum.
– Annar leikhluti hafinn og það eru Keflvíkingar sem gera fyrstu stigin og leiða nú 30-27.
Michael Craion sækir að Njarðvíkurkörfunni í 1. leikhluta.
___________________________________________________________________________________________________________________________________________
– 1. leikhluti 28-27
– Staðan er 28-27 eftir fyrsta leikhluta. Elvar Már kominn með 9 stig í liði Njarðvíkur og Craion 8 stig í liði Keflavíkur. Varnir beggja liða frekar daprar þennan fyrsta leikhluta og ljóst að tökin verða hert í öðrum leikhluta.
– 28-27…Baptist braust í gegn og skoraði og fékk villu að auki, vítið steinlá og þriggja stiga sókn Keflavíkur í hús.
– 25-25 Craion jafnar fyrir Keflavík.
– 21-23 Ágúst Orrason með þrist fyrir Njarðvík og 1.54mín eftir af fyrsta leikhluta. Keflvíkingar taka leikhlé. Hraður leikur og nokkuð um sveiflur, bæði lið freista þess örugglega núna að herða tökin í vörninni.
– 21-18 fyrir Keflavík, hér gerast hlutirnir hratt og Keflvíkingar eru að setja sterka vörn á Elvar Már sem hefur farið fremur óvarlega með boltann á upphafsmínútum leiksins en hefur engu að síður skorað 7 stig nú þegar á jafn mörgum mínútum.
– 15-16: 5 stig í röð frá gestunum
– 13-11 Elvar með Njarðvíkurþrist og mikil barátta hér á upphafsmínútum leiksins.
– 11-8 fyrir Keflavík og 6.40mín eftir af fyrsta leikhluta.
– 9-8 Magnús Þór með annan Keflavíkurþrist og byrjar vel í kvöld.
– 5-5 Nigel Moore með þrist og Elvar Friðriks körfu í teignum og Njarðvíkingar jafna leikinn.
– Magnús Þór opnar leikinn með þrist fyrir Keflavík og staðan 3-0 fyrir heimamenn.
– Byrjunarlið Keflavíkur: Valur Orri Valsson, Magnús Þór Gunnarsson, Billy Baptist, Darrel Lewis og Michael Craion.
– Byrjunarlið Njarðvíkur: Elvar Már Friðriksson, Ágúst Orrason, Nigel Moore, Maciej Stanislav Baginski og Marcus Van.
___________________________________________________________________________________________________________________________________________
– Nú eru akkúrat 3 mínútur til leiks….
– Verið er að kynna liðin til leiks svo þetta fer að bresta á…minnum á að leikurinn er í beinni netútsendingu hjá Sporttv.is
– Bæði Marcus Van og Friðrik Erlendur Stefánsson eru mættir í búning en Njarðvíkingar höfðu óttast að geta ekki telft þeim fram í kvöld vegna meiðsla.
– Nú eru um sjö mínútur til leiks og pallarnir orðnir nokkuð þéttir. Liðin mættust einmitt í Keflavík skömmu fyrir jól en þar höfðu Njarðvíkingar betur með eins stigs sigri eftir framlengdan slag.