Valur lagði Keflavík í kvöld í Subway deild karla í Origo Höllinni, 88-74. Eftir leikinn er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 24 stig á meðan að Valur er í 4. sætinu með 22 stig.
Fyrir leik
Liðin höfðu í eitt skipti áður mæst í deildinni á tímabilinu. Þann 19. nóvember hafði Keflavík eins stigs sigur með flautukörfu frá Domynikas Milka á Val í Blue höllinni, 79-78.
Gangur leiks
Heimamenn í Val byrjuðu leik dagsins betur. Ná snemma að búa sér til smá forskot og eru 5 stigum yfir þegar að fyrsti fjórðungur er á enda, 21-16. Með tveimur góðum þristum frá Darius Tarvydas nær Keflavík að komast yfir á fyrstu mínútum annars leikhlutans. Undir lok fyrri hálfleiksins skiptast liðin svo á snöggum áhlaupum, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er allt í járnum, 40-39.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var fyrrum leikmaður Keflavíkur Callum Lawson með 10 stig á meðan að fyrir Keflavík var það Mustapha Heron sem dró vagninn með 10 stigum.
Valur nær svo að vera skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins. Hóta því í nokkur skipti að setja forystu sína í tveggja stafa tölu í þriðja leikhlutanum. Keflavík nær þó aðeins að bíta frá sér undir lok fjórðungsins og er munurinn aðeins 4 stig fyrir þann fjórða, 59-54. Með góðu áhlaupi nær Valur að setja forystu sína mest í 15 stig í upphafi lokaleikhlutans. Þá forystu ná þeir að mestu að halda í og sigla að lokum heim nokkuð öruggum 14 stiga sigur, 88-74
Tölfræðin lýgur ekki
Valsmenn gjörsamlega slátruðu frákastabaráttu leiksins. Tóku 54 á móti 29 fráköstum Keflavíkur.
Atkvæðamestir
Fyrir Val var Hjálmar Stefánsson með 15 stig og 10 fráköst. Honum næstur var Pavel Ermolinski með 10 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar.
Fyrir Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson bestur með 12 stig, 6 fráköst, 7 stoðsendingar og Mustapha Heron bætti við 22 stigum.
Hvað svo?
Valur á leik næst þann 10. mars gegn Íslandsmeisturum Þórs í Þorlákshöfn. Keflavík leikur næst degi seinna, þann 11. mars gegn KR heima í Blue Höllinni.
Myndasafn (væntanlegt)