Það var óvenjuþétt setinn bekkurinn í Iðu í gærkvöld þegar Hamar úr Hveragerði var í heimsókn hjá FSu, eins og vera ber í nágrannaslag. Liðin buðu áhorfendum upp á spennu og toppskemmtun – stífan varnarleik og flott tilþrif á báða bóga. En það var „litla liðið“ frá Selfossi sem hafði betur, stóðst áhlaup gestanna og vann að lokum nokkuð öruggan 14 stiga sigur, 101-87.
Matt Brunell sló tóninn í upphafi fyrir heimaliðið með þriggja stiga körfu, og 4 stig frá Erni Sigurðarsyni og Þorsteini Má Ragnarssyni megnuðu ekki að kveða heimamenn í kútinn. Þetta varð eina skiptið í leiknum sem Hamar var með forystuna. Nú virtust allar flóðgáttir opnast og þristunum rigndi yfir Hvergerðinga. Daði Berg setti þrjá með stuttu millibili, auk vítaskots og staðan 13-6. Svavar Ingi Stefánsson og Ari Gylfason bættu við tveimur þristum hvor fyrir lok fyrsta fjórðungs, sá síðasti flautukarfa skammt innan við miðju frá Ara, og Hamarsmenn komnir í alldjúpa holu í upphafi leiks, heilum 20 stigum undir (34-14), sem hefur væntanlega ekki verið uppleggið hjá þjálfarateymi gestanna, þeim Lárusi og Daða Steini.
Í öðrum leikhluta hélst þessi munur á liðunum (40-20, 47-27) og mestur varð munurinn 22 stig á 16. mínútu, 51-29. Þá komst loksins straumur á Hveragerðislínuna og Hamar skoraði næstu 12 stig. Hamar minnkaði svo muninn í 8 stig, 53-45, fyrir hálfleik og Hvergerðingar á pöllunum um það bil að ná andanum aftur.
Í upphafi seinni hálfleiks átti Jerry Lewis Hollis fyrsta orðið og munurinn kominn niður í aðeins 6 stig. En tvö víti frá Brunell og 5 stig í kjölfarið frá Ara léttu pressunni aðeins af heimaliðinu og eftir þetta var leikurinn í jafnvægi, Hamar komst ekki nær en 6-7 stig og eftir 30 mínútna leik munaði 10 stigum, 77-67.
Í upphafi fjórða hluta var Karl Ágúst Hannibalsson betri en enginn og skoraði fyrstu 4 stig heimamanna en Þorsteinn Már og Örn svöruðu jafnharðan og Örn minnkaði svo muninn í 5 stig með þristi sunnan úr Hafnarfirði. En Svavar Ingi svaraði í sömu mynt, 85-77, og rúmar 7 mínútur eftir. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur en ekki létti það róðurinn fyrir Hamar að Hollis fékk sína 5. villu þegar 3:30 voru eftir af leiknum.
Hamarsmenn urðu að brjóta til að stoppa klukkuna og sendu Ara, sem var öryggið uppmálað, fjórum sinnum á línuna síðustu 3 mínúturnar. Hann setti 7 af þeim 8 skotum ofan í, og alls 12 af 13 í leiknum, og gulltryggði FSu dýrmætan og kærkominn sigur.
Ari var stigahæstur heimamanna með 29 stig (47% skotnýting), tók 4 fráköst og fiskaði margar villur. Hann átti skínandi leik, bæði í vörn og sókn. Miðherjinn Matthew Brunell var einnig mjög öflugur, með 22 stig og 75% nýtingu, þar af 3/3 í þristum, og glimrandi vörn. Svavar Ingi var sömuleiðis góður, skoraði 19 stig, þar af 18 úr 8 þriggjastigatilraunum (75%!!!) og tók 4 fráköst. Daði Berg Grétarsson kynti undir sjálfstraustinu í liðinu í upphafi leiks með frábærri skotsýningu og fyrstu 10 af 13 stigunum. Hann bætti svo 2 stigum við, 8 stoðsendingum, 5 fráköstum og 8 fiskuðum villum og stjórnaði liðinu af öryggi. Karl Ágúst kom með frábæra orku af bekknum og 11 stig, Sigurður Orri Hafþórsson lék sinn fyrsta leik eftir langt meiðslatímabil og skilaði 4 stigum á mikilvægum augnablikum. Þessir tveir voru báðir með 100% skotnýtingu, og er varla hægt að biðja um meira af bekknum? Gísli Gautason og Hjálmur Hjálmsson skiptu svo jafnt á milli sín þeim 4 stigum sem upp á vantar og lögðu sitt í púkkið, ásamt Daníel Kolbeinssyni.
Þeir Hollis og Örn voru atkvæðamestir Hamarsmanna í leiknum. Þeir komust þó hvorugur almennilega í gang fyrr en vel var liðið á leikinn en voru eftir það illviðráðanlegir. Örn var stigahæstur með 27 stig og frábæra skotnýtingu af öllum færum, 12/18 eða 67% og bætti við það 6 fráköstum. Hollis skoraði 26 stig, tók 9 fráköst, gaf 5 stoðsendingar, fiskaði 8 villur og stal 4 boltum. Hann var framlagshæstur allra í leiknum með 32 punkta. Þorsteinn Már átti mjög góða spretti, 14 stig og 6 fráköst og Oddur skoraði 10 stig. Lárus Jónsson, spilandi þjálfari Hamars, skoraði 8 og miðherjinn stóri, Ragnar Nathanaelsson, skoraði 2 stig og varði 3 skot.
Leiða má að því líkur að einkum tvennt hafi ráðið úrslitum í þessum leik. Í fyrsta lagi var engin ógn af Hamarsliðinu utan þriggja stiga línunnar (3/22), á meðan heimaliðið var eitrað af því færi (17/30). Í öðru lagi náði FSu að halda Hollis, Erni og Ragnari Nat. í samtals aðeins 18 fráköstum, en þessir þrír taka að jafnaði 30 fráköst fyrir sitt lið í hverjum leik.
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson
Mynd með frétt/ Hermann Snorri: Ari Gylfason skaut nokkrum rakettum í flugeldasýningu FSu í gærkvöldi.