KR varð í kvöld heitasta lið deildarinnar þegar það vann sinn fjórða leik í Domino´s deild karla í röð. KR skellti þá Fjölni 98-87 og deila röndóttir nú 3.-5. sæti með Þór Þorlákshöfn og Snæfell. Fjölnir að sama skapi tapaði sínum fjórða deilarleik í röð. Brynjar Þór Björnsson var stigahæstur í liði KR með 23 stig og 6 fráköst en hjá Fjölni var Chris Smith að leika sinn fyrsta leik þetta tímabilið og kláraði með myndarlega tvennu, 24 stig og 21 frákast.
Darshawn McClellan byrjaði vel í sínum fyrsta leik með KR í kvöld og Fjölnismenn voru í vandræðum með þennan stæðilega leikmann. KR tók af skarið og náði forystunni snemma en Fjölnismenn voru aldrei langt undan. Martin Hermannsson fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta og sást lítið í fyrri hálfleik eftir það.
Gunnar Ólafsson kom sterkur af Fjölnisbekknum og var fljótur að skora sín fyrstu stig úr þriggja stiga skoti en heimamenn í KR brutu einnig á honum og fékk Gunnar víti að auki. Möguleiki á fjögurra stiga sókn en vítið vildi ekki niður… þá sjáldan að fjögurra stiga sókn er í boði eiga menn að skófla niður þessum vítum!
KR leiddi 27-20 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Emil Þór Jóhannsson átti lokaorðið fyrir KR með sterku gegnumbroti um leið og fyrstu tíu mínúturnar runnu sitt skeið.
Gunnar Ólafsson var ekki hættur fyrir utan þriggja stiga línuna því snemma í öðrum leikhluta minnkaði hann muninn í 33-30. Bræðurnir Helgi og Finnur Magnússynir voru skömmu síðar á ferðinni og komu með 6-0 dembu fyrir KR sem breyttu stöðunni í 43-33. Varnir beggja liða voru þéttar framan af öðrum leikhluta en gáfu eftir á lokasprettinum. KR var við stýrið í fyrri hálfleik og leiddi 51-40 í leikhléi.
Brynjar Þór og Finnur Atli voru báðir með 13 stig í hálfleik og nýji KR-ingurinn McClellan var með 5 stig og 13 fráköst. Hjá Fjölni var Chris Smith með 11 stig og Gunnar Ólafsson 9.
Fjölnismenn gerðu sjö fyrstu stigin í síðari hálfleik áður en Helgi Magnússon kom KR á blað eftir tveggja mínútna leik. Eftir þrist frá Miles var 2-10 byrjun Fjölnis staðreynd og nokkuð kapp hlaupið í gestina. Finnur Atli og Martin Hermannsson tóku þá við sér í KR liðinu og heimamenn breyttu stöðunni úr 53-50 í 66-52 eða 13-2 demba.
Til þrif leiksins átti svo Kristófer Acox þegar hann undir lok þriðja leikhluta tók viðstöðulaust sóknarfrákast og tróð með miklum tilþrifum. Kalli West var í DHL í kvöld sem og KR TV svo tilþrifaþyrstir mega bíða spenntir eftir Acox-klippum en kappinn var með 11 stig og 6 fráköst í kvöld og þrjú varin skot sem voru í þungavigtarkantinum.
Staðan var 76-62 fyrir KR eftir þrjá leikhluta og heimamenn virtust ekkert á þeim buxunum að láta forystuna af hendi.
Þegar rétt rúmar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan 87-70 KR í vil. Fjölnismenn splæstu þá í 7-0 sprett á rétt rúmri mínútu og náðu síðan að minnka muninn í 89-81 þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka.
Gulir og bláir gestirnir fóru þó of oft illa með boltann, misstu hann nokkrum sinnum klaufalega frá sér og Brynjar Þór Björnsson slökkti svo allar vonir gestanna þegar 50 sekúndur voru til leiksloka. Brynjar mætti þá með þrist og breytti stöðunni í 92-81. Lokatölur reyndust svo 98-87 KR í vil.
Árni Ragnarsson var ekki með Fjölni í kvöld en fylgdist með af bekknum. Hann hefur verið inn og út úr Fjölnisliðinu þetta tímabilið sökum meiðsla. Chris Smith var atkvæðamikill með 24 stig og 21 frákast en Isaac Miles virkaði áhugalaus og linur, skilaði af sér 13 stigum og 4 stoðsendingum en þarf að vera mun meiri leiðtogi í ungu Fjölnisliði. Tómas Heiðar átti góða spretti sér í lagi í síðari hálfleik og kláraði með 18 stig.
Brynjar Þór kláraði með 23 stig og 6 stoðsendingar hjá KR og Martin Hermannsson var beittur í síðari hálflei, 19 stig og 6 stoðsendingar. McClellan virðist vera sterkur strákur með 8 stig og 16 fráköst í kvöld og næmt auga fyrir sendingum á blokkinni.
Mynd og umfjöllun/ [email protected]
* Karfan.is á Twitter -