Tindastólsmenn mættu í Ásgarð í kvöld til að etja kappi við Stjörnumenn. Gengi liðanna tveggja hefur verið mjög ólíkt það sem af er vetri, en fyrir leikinn voru Stjörnumenn í öðru sæti á meðan Skagfirðingar sátu á botni deildarinnar.
Leikurinn var mjög jafn til að byrja með og ljóst að Stólarnir ætluðu að selja sig dýrt. Liðin skiptust á að leiða með minnsta mun og var nokkur áramótabragur á liði Stjörnunnar. Heimamenn höfðu þó eins stigs forystu að loknum fyrsta leikhluta, 26-25.
Stólarnir börðust hetjulega í öðrum leikhluta og héldu vel í við Garðbæinga framan af. Þá tók Kjartan Kjartansson til sinna ráða og skoraði tvær þriggja stiga körfur með nokkurra sekúndna millibili. Þá virtist neistinn slokkna hjá gestunum, þeir fóru að svekkja sig á mistökum sínum og á dómurum leiksins. Stjörnumenn gengu á lagið og kveiktu í neti gestanna. Jovan Zdravevski var sérstaklega heitur, en kappinn setti 16 stig í fyrri hálfleik, flest fyrir utan þriggja stiga línuna. Staðan í hálfleik var 59-42, Stjörnunni í vil og ljóst að Stólarnir þyrftu að koma mun betur stemmdir til leiks í síðari hálfleik.
Eftir lengdan hálfleik komu liðin aftur til leiks, og ljóst var frá fyrstu mínútu að Skagfirðingar ætluðu ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Gestirnir börðust um alla bolta og minnkuðu muninn fljótlega niður í 10 stig. Þá rönkuðu Stjörnumenn aðeins við sér og stöðvuðu áhlaupið. Gestirnir héldu sér þó inni í leiknum með mikilli baráttu, en eftir góðan þrist frá Marvini Valdimarssyni náðu Stjörnumenn að loka þriðja leikhluta vel, og höfðu 14 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 81-67.
Í fjórða leikhluta var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Stjörnumenn sigldu sigrinum örugglega í höfn, og þrátt fyrir hetjulega baráttu gestanna höfðu Garðbæingar að lokum sigur, 101-84.
Stigaskor heimamanna dreifðist mjög jafnt, og voru fimm leikmenn með yfir 10 stig. Jarrid Frye var þeirra stigahæstur með 20 stig, og Justin Shouse kom næstur með 19.
Hjá gestunum var George Valentine atkvæðamestur með fína tvennu, 23 stig og 11 fráköst.
Eftir sigurinn jöfnuðu Stjörnumenn Grindvíkinga að stigum á toppi deildarinnar. Tindastóll situr hins vegar ennþá sem fastast á botni deildarinnar.
Mynd úr safni/ [email protected]
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson