spot_img
HomeFréttirSISU danskur bikarmeistari þriðja árið í röð

SISU danskur bikarmeistari þriðja árið í röð

Hrannar Hólm stýrði kvennaliði SISU til sigurs í dönsku bikarkeppninni um helgina en þetta var þriðja árið í röð sem SISU verður bikarmeistari. Andstæðingarnir í Lemvig áttu aldrei séns þar sem lokatölurnar voru 80-45 SISU í vil.
 
,,Okkar lið er enn ósigrað í Danmörku eftir 14 umferðir í deild og 5 umferðir í bikar. Leikurinn var frábær af okkar hálfu, en ekki að sama skapi spennandi. Eftir fyrsta fjórðung var staðan 29-11 fyrir okkur og eftirleikurinn auðveldur. Lokastaðan var 80-45 og þriðji bikartitilinn í röð orðinn staðreynd. Allir tólf leikmenn okkar komu við sögu en Kaninn okkar, Marie Malone, var kjörinn maður leiksins með 19 stig og 10 fráköst. Reyndar var liðið jafnt og liðsheildin sterk,” sagði Hrannar sem einnig er með lið SISU í Evrópukeppni félagsliða.
 
,,Ástæðan fyrir yfirburðum okkar er sú að við erum einnig að keppa í Evrópukeppni og til að eiga einhvern séns þar þurfum við að æfa miklu meira og hafa betri leikmenn en önnur lið hér í Danmörku. Afleiðingin er sú að við höfum náð töluverðum yfirburðum, amk um stundarsakir. Vonandi styrkjast hin liðin fljótlega, þannig að meiri spenna komist í keppnina,” sagði Hrannar sem hefur svo að sjálfsögðu tekið stefnuna á danska meistaratitilinn og fátt ef nokkuð sem virðist geta hamið SISU í þeirri vegferð sinni.
  
Fréttir
- Auglýsing -