spot_img
HomeFréttirNjarðvík upp fyrir Grindavík eftir stórsigur

Njarðvík upp fyrir Grindavík eftir stórsigur

Njarðvíkingar unnu í kvöld stórsigur á Grindavík í Domino´s deild kvenna. Lokatölur í Ljónagryfjunni voru 99-70 þar sem Lele Hardy, spilandi þjálfari Njarðvíkurkvenna, bauð upp á enn einn skrímslaleikinn. Hardy var með 29 stig, 18 fráköst, 6 stoðsendingar og 7 stolna bolta! Hjá Grindavík var Crystal Smith með 30 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar.
 
Jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik þar sem Njarðvíkingar leiddu 44-43 en síðari hálfleikur var í einkaeign þeirra grænklæddu.
 
,,Við mættum bara miklu grimmari inn í síðari hálfleik og allar sem komu inn settu eitthvað í púkkið. Við hittum vel fyrir utan og spiluðum grimma og flotta vörn, hér var leikgleði sem hefur ekki sést í langan tíma,” sagði Agnar Mar Gunnarsson aðstoðarþjálfari Njarðvíkurkvenna eftir leikinn í kvöld.
 
,,Lele og Svava voru með mjög góðan leik og nánast allar sem komu við sögu. Soffía kom sterk inn í sínum fyrsta leik eftir skipti sín úr Keflavík og þá átti Salbjörg einnig fínan dag,” sagði Agnar sáttur með sigurinn en næst á dagskrá hjá kvennaliði UMFN er grannaslagur gegn Keflavík.
 
,,Sá leikur leggst mjög vel í mig. Stelpurnar hafa verið á mikilli uppleið seinustu vikur og nýr sóknarleikur að verða betri með hverjum leik. Keflavík er með frábært lið en eru alls ekki ósigrandi. Ég trúi ekki öðru en að við mætum kokhraustar eftir frábæran leik á móti Grindavík. Ég vona bara að fólk mæti og styðji við bakið á þeim eins og það hefur gert því það er þvílíkur styrkur að hafa fólkið með sér. Tala nú ekki um þegar Njarðvík og Keflavík eigast við,” sagði Agnar.
 
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -