Heitasta lið landsind, KR, er komið með nýjan erlendan leikmann en kappinn sá er leikstjórnandi og heitir Brandon Richardson. Hann ku vera tiltölulega nýskriðinn út úr námi í Bandaríkjunum en þar spilaði hann í háskólaboltanum með Nebraska.
Gunnar Sverrisson aðstoðarþjálfari KR sagði Karfan.is áðan að Richardson væri leikstjórnandi og stæði í c.a. 180 sentimetrum.
,,Nú eru báðir erlendu leikmennirnir okkar frá Kaliforníu svo ætli ég verði ekki að fara með þá í 66°Norður og koma þeim í hlýjan fatnað svo þeir krókni nú ekki úr kulda,” sagði Gunnar léttur á manninn þegar Karfan.is hafði samband.
Vesturbæingar eru því orðnir fullmannaðir og komnir með leikstjórnanda, munaður sem hefur lítt verið við lýði þetta tímabilið þó Martin Hermannsson hafi leyst þá stöðu vel. Keegan Bell sem fenginn var til liðssins stóð engan veginn undir væntingum og þá sást Martin æ oftar koma upp með boltann en það er okkar staðfasta trú hér á Karfan.is að það sé ekki hans staða að upplagi.