Keflvíkingar tóku á móti Stjörnumönnum í Toyotahöllinni í kvöld í dominosdeild karfla. Fyrir leikinn voru Stjörnumenn á toppnum ásamt reyndar þremur öðrum liðum en Keflvíkingar í 6. sæti. Svo fór að Keflvíkingar voru grimmari á lokasprettinum og kláruðu leikinn vel í síðasta fjórðung.
Það var svo sem aldrei neinn gríðarlegur munur á liðunum þetta kvöldið. Stjörnumenn komust hinsvegar mest í tólf stiga forskot í öðrum leikhluta. Í hálfleik var staðan 47:49 gestina í vil sem höfðu verið að spila nokkuð vel sóknarlega en virtust ekki getað haldið almennilega í þá forystu sem þeir höfðu skapað sér. Í þriðja leikhluta héldu Stjörnumenn sínu striki og voru að leiða með þetta 3 til 4 stigum en undir lok þess þriðja komust Keflvíkingar loksins 1 stigi yfir og höfðu þá hægt og bítandi náð að koma sér inní leikinn með dyggri hjálp frá Darrel Lewis sem nánast tók leikinn í sínar hendur á þessum tímapunkti fyrir Keflvíkinga.
Stjörnumenn áttu fá svör við frábærum leik Darrel, en að sama skapi voru þeir ekki í neinum vandræðum hinumegin á vellinum að salla niður stigum á Keflvíkinga. Í fjórða leikhluta skiptust liðin á að skora allt til loka fjórðungsins og því hefði sigurinn hæglega getað dottið hvorumegin í þessum leik. Stjörnumenn voru hinsvegar lánlausir og fóru illa með ágætis færi undir lok leiks á meðan heimamenn virtust yfirvegaðir. Stjörnumenn sendu Keflvíkinga á vítalínuna undir lok leiks til að freista þess að ná forystunni ef taugar Keflvíkinga myndu klikka þar. En Keflvíkingar voru traustir á línunni og settu niður sín víti. Í síðustu sókninni átti Justin Shouse lokaskotið en það skot var varið og því Keflvíkingar sem hirtu sigurinn. Stjörnumenn sitja þar með í 3-4 sæti eftir leiki kvöldsins með 18 stig líkt og Snæfell en Keflvíkingar náðu KR að stigum og deilda því 5-6 sætinu með þeim.