Njarðvíkingar hnoðuðu saman nýju þriggja stiga meti þessa leiktíðina þegar þeir létu 21 kvikyndi rigna yfir Skallagrím í Ljónagryfjunni í kvöld. Lokatölur 107-70 Njarðvík í vil sem frá fyrstu mínútu voru sjóðandi heitir fyrir utan og settu nýtt met þetta tímabilið þegar rúmar 10 mínútur lifðu enn leiks. Borgnesingar voru bæði linir og áhugalausir og áttu ekkert erindi í gryfjuna í kvöld.
Ágúst Orrason opnaði leikinn með þriggja stiga körfu en þannig komu 12 fyrstu stig Njarðvíkinga, Ágúst með tvo fyrstu, Nigel Moore þann þriðja og Maciek Baginski þann fjórða, 12-4 og gestirnir úr Borgarnesi á hælunum í upphafi leiks.
Njarðvíkingar komust í 16-4 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður en þá var Pálma Þór þjálfara nóg boðið og kallaði sína menn á Borgarnesbekkinn. Gestirnir náðu hægt og bítandi að saxa niður muninn en staðan þó 28-18 að loknum fyrsta leikhluta. Hjörtur Hrafn Einarsson lokaði leikhlutanum með Njarðvíkurþrist þegar sex sekúndur voru eftir. Heimamenn voru svo hvergi nærri hættir fyrir utan þriggja stiga línuna þetta kvöldið.
Skallagrímsmönnum tókst illa að leysa vörn Njarðvíkur sem lið svo oftar en ekki enduðu sóknir þeirra í hnoði hjá Carlos og Haminn en það gefur ekki góða raun til lengdar. Óli Ragnar Alexandersson kom með góða baráttu inn af Njarðvíkurbekknum en það voru þó þristarnir að frumkvæði Ágústar Orrasonar sem voru banabiti Borgnesinga í kvöld.
Ágúst gerði þrjá þrista með skömmu millibili í öðrum leikhluta og sá þriðji breytti stöðunni í 52-31. Næst var röðin komin að Elvari Friðrikssyni og hann kom Njarðvík í 55-31 og Njarðvík leiddi svo 56-36 í hálfleik.
Ágúst var kominn með 17 stig og Elvar 12 í hálfleik í Njarðvíkurliðinu en hjá Skallagrim var Carlos með 12 og Haminn 11. Njarðvíkingar settu niður 12 af 22 þristum í fyrri hálfleik og voru rétt að byrja.
Það kom svo sem ekkert á óvart að gestirnir mættu til leiks í síðari hálfleik með svæðisvörn, eitthvað varð að gera til að reyna að hemja heimamenn en þeir urðu ekki tamdir þetta kvöldið. Fyrsta karfa Ágústar Orrasonar í síðari hálfleik var auðvitað þristur og svona gekk þetta uns staðan var orðin 85-48 Njarðvík í vil eftir þrjá leikhluta.
Þristametið, þ.e. flestar þriggja stiga körfur í deildarleik þetta tímabilið, féll þegar Nigel Moore kom Njarðvík í 77-44. Óli Ragnar stráði svo salti í sár gestanna þegar hann kom með flautuþrist og staðan 85-48 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Fjórði leikhluti var eins og gefur að skilja aldrei spennandi. Lokatölur reyndust 107-70 og náðu allir liðsmenn Njarðvíkinga að skora en heimamenn fögnuðu innilega þegar Jón Böðvarsson gerði sín fyrstu stig og jafnframt þau síðustu í leiknum úr engu öðru en þriggja stiga skoti!
Njarðvíkingar voru funheitir í kvöld, 21 þristur í 39 tilraunum, 54% skotnýting eða 11% betri nýting í þriggja stiga skotum heldur en teigskotum sínum! Þó vissulega sé erfitt að eiga við lið sem hrökkva svona hrikalega í gang þá hefur fjarvera Páls Axels áhrif á nýliðana enda fer þar reyndur og sterkur leikmaður. Í annan stað þá voru gestirnir ekki með hugann við verkið og þá einkum og sér í lagi erlendu leikmennirnir Medlock og Quaintance og þó sá síðarnefndi hafi verið með myndarlega tvennu, 20 stig og 16 fráköst, þá virtist hún koma meira af skyldurækni en eldmóð.
21 þriggja stiga karfa er ansi myndarlegt framlag og met í deildarkeppninni þetta árið. Hólmarar gerðu þó 23 þrista á þarsíðustu leiktíð en þetta eru næstflestir þristar í deildarleik síðan KKÍ hóf að nota Live Stat kerfið árið 2009. Fyrir þann tíma og til að komast að raun um hvaða lið hafi skorað flesta þrista í einum og sama deildarleiknum og eigi þ.a.l. Íslandsmetið ef svo má að orði komast þá þurfum við að kafa dýpra og getum vonandi slegið því fram á næstunni.