Þór krækti í tvö mikilvæg stig í gærkvöld þegar þeir báru sigurorð af Hetti 98-87 í Síðuskóla og eru því enn ósigraðir á heimavelli það sem af er vetri. Leikurinn í gær var lengi vel jafn og spennandi og allt virtist stefna í annan spennuleikinn í röð. Þórsliðið sýndi enn og aftur magnaðan karakter og með góðum fjórða leikhluta náðu þeir að innbyrgða 11 stiga sigur, 98 -87.
?Þór byrjaði leikinn af miklum krafti og var ljóst að þeir ætluðu sér greinilega að selja sig dýrt og þá sérstaklega Ólafur Aron sem skoraði átta fyrstu stig heimamanna. Hattarmenn voru þó aldrei langt á eftir heimamönnum en gestirnir gerðu sér þó afar erfitt fyrir í byrjun leiks með því að tapa knettinum þrívegis á afar klaufalegan hátt. Með Austin Bracey fremstan í flokki voru gestirnir þó aldrei langt á eftir heimamönnum. Það var þó afar gaman að sjá innkomu Vic Ian en hann kom með fanta baráttu inn í vörn Þórs sem en hann var afar duglegur við að dreifa knettinum snyrtilega milli samherja sína. Gestirnir náðu þó fínum 7-4 lokaspretti og því leiddu heimamenn einungis með þremur stigum eftir 1. leikhluta, 25-22.??
Þórsliðið byrjaði annan leikhluta af sama krafti og í þeim fyrsta en ungu strákarnir í liði Þórs þeir Vic og Sindri voru afar áberandi og skoruðu átta af fyrstu 10 stigum Þórs og skyndilega voru heimamenn komnir með 9 stiga forystu, 32-23. Þórsarar héldu gestunum í hæfilegri fjarlægð, voru með 9-13 stiga forystu á gestina allan fjórðungin en Þórsarar fóru inn í búningsklefa með 10 stiga forskot í farteskinu í hálfleik og virtust vera með leikinn í höndum sér, 50 – 40.
??Gestirnir komu tvíelfdir til leiks í síðari hálfleik og ætluðu greinilega ekki að láta heimamenn hafa það of náðugt. Gestirnir náðu góðum 6-2 spretti í upphafi þriðja leikhluta. Þrátt fyrir fína byrjun gestanna, héldu heimamenn ró sinni og voru ávallt skrefinu á undan. Frisco Sandidge hrökk þó í gang um miðjan þriðja fjórðung og setti 6 af 12 stigum sínum í þriðja leikhluta. Með Frisco í fararbroddi náðu gestirnir að minnka forystu heimamanna niður í tvö stig, 66:64 fyrir fjórða og síðasta fjórðung og allt virtist því stefna í æsispennandi lokafjórðung.
??Leikmenn Hattar byrjuðu fjórða leikhluta afar vel og náðu góðum 5-0 spretti og voru skyndilega komnir yfir 66:69 í fyrsta sinn í leiknum síðan í stöðunni 8:9. Eftir það var jafnt á öllum tölum en bæði liðin skiptust á að halda forystunni. Vendipunktur leiksins var þó klárlega þegar Viðar Örn Hafsteinsson fékk á sig tæknivillu þegar um þrjár mínútur voru eftir. Halldór Örn var þá sendur á vítalínuna þar sem hann hitti þó aðeins úr öðru skoti sínu og staðan því 84:80. Halldór bætti fyrir misnotaða vítaskotið með því að setja niður snyrtilegt sniðskot nokkrum sekúndum síðar og staðan því 86:80 fyrir heimamenn og brekkan því afar brött fyrir gestina. Það má segja að góð vörn hafi síðan endanlega klárað leikinn fyrir heimamenn þegar að Darko Milosevic stal knettinum af Eysteini Bjarna. Þórsarar fóru upp í sókn sem endaði á því að Halldór Örn setti niður fallegan þrist og staðan því 89:80 fyrir Þór þegar einungis 1:30 voru eftir og dagskránni nánast lokið. ??Þórsarar voru síðan skynsamir þessa síðustu mínútu leiksins. Ólafur Aron átti síðan lokaorðið þegar hann stal knettinum af Eysteini Bjarna og tróð svo glæsilega við mikinn fögnuð stuðningsmanna og liðsfélaga. Þórsarar fögnuðu eins og áður segir 98-87 gegn firnasterku liði Hattar.
??Rétt eins og í leiknum gegn Breiðablik var það liðsheildin sem skóp þennan sigur. Allir leikmenn liðsins voru tilbúnir til að berjast fyrir liðið og var gaman að sjá baráttuna þá sérstaklega í vörninni þar sem menn voru yfirleitt alltaf tilbúnir í hjálparvörninni. Sóknarleikurinn gekk vel og menn leyfðu knettinum yfirleitt að ganga vel á milli manna.
Afar erfitt er að taka einn leikmann út úr liðinu en það er þó ekki annað hægt en að nefna frammistöðu Ólafs Arnars sem skoraði 31 stig og svo virðist sem fáir geta stöðvað hann á opnum velli. Annars fá allir leikmenn liðsins A+ í kladdan fyrir frammistöðu sína og það er vonandi að strákarnir haldi áfram að njóta þess að spila körfuknattleik.??Örstutt um gestina okkar. Leikmenn Hattar sýndu það af hverju liðið er í toppbaráttunni í 1. deildinni. Liðið sýndi góða baráttu og oft afar lipra takta. Það voru aðallega tveir hlutir sem léku leikmenn Hattar grátt í leiknum. Í fyrsta lagi tapaði liðið of mörgum boltum, en liðið tapaði alls 13 slíkum og oft á tíðum varð það vegna klaufagangs leikmanna. Annað sem lék Hattarmenn grátt var að Frisco Sandidge fann enga glufu á vörn Þórs en Frisco skoraði einungis 12 stig en það má að sama skapi hrósa varnarmönnum Þórs fyrir að loka algjörlega á þennan snjalla leikmann. Það er þó nokkuð ljóst að Hattarmenn munu koma dýrvitlausir inn í næsta leik.
Sem sagt leikur Þórs og Hattar var hin besta skemmtun.
Umfjöllun og myndir/ Páll Jóhannesson