spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR skrefi nær sæti í úrslitakeppni eftir mikilvægan sigur gegn ÍR

KR skrefi nær sæti í úrslitakeppni eftir mikilvægan sigur gegn ÍR

KR lagði ÍR í kvöld á Meistaravöllum í Subway deild karla, 93-80. Eftir leikinn er KR í 8. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að ÍR er sæti neðar með 14 stig.

Fyrir leik

Liðin höfðu í eitt skipti áður mæst í deildinni á tímabilinu. Þann 18. nóvember hafði ÍR nokkuð öruggan 22 stiga sigur, 107-85.

Það vantaði mikilvæga pósta í bæði lið í kvöld. Hjá ÍR var Sigvaldi Eggertsson í borgaralegum klæðum á meðan að hjá KR tók Isaiah Manderson út eins leiks bann eftir að hafa verið rekinn út úr húsi í hálfleik í síðasta leik þeirra gegn Stjörnunni í MGH.

Gangur leiks

Það voru heimamenn í KR sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Eru með forystu frá fyrstu mínútum leiksins, mest 18 stigum yfir í fyrsta leikhlutanum, en þegar að fjórðungurinn er á enda er staðan 28-13. ÍR ná að hald í við heimamenn undir lok fyrri hálfleiksins. Ná þó ekkert að vinna á forystunni, en munurinn er enn 18 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-29.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Adama Darboe með 13 stig á meðan að fyrir gestina voru Triston Simpson, Collin Pryor og Igor Maric allir með 8 stig.

Segja má að heimamenn í KR hafi gert útum leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Leikmenn ÍR jafn vonlausir í þriðja leikhlutanum og þeir voru á upphafsmínútum leiksins. Heimamenn virtust geta gert það sem þeim datt í hug á sóknarhelmingi vallarins og á tímabili var eins og ÍR gæti ekki keypt sér körfu. Staðan fyrir þann fjórða 75-48 og ekki eins og það sé eitthvað ómögulegt fyrir lið að vinna slíkan mun niður í einum fjórðung, hinsvegar var þetta ÍR lið aldrei að fara að gera það. Mest var spennan um það hvort að ÍR næði inn fyrir 22 stig í lokaleikhlutanum og myndi þar með eiga innbyrðis á KR færi svo að liðin yrðu jöfn að stigum í lok deildar í vor. Með ágætis lokakafla nær ÍR að tryggja sér þessa innbyrðisstöðu, tapa þó með 13 stigum, 93-80.

Tölfræðin lýgur ekki

KR-ingar áttu teiginn í leik kvöldsins. Bæði taka þeir fleiri fráköst, 44 á móti 32, sem og fleiri stig í teignum, 48 á móti 30.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur heimamanna í leiknum var Dani Koljanin með 21 stig, 16 fráköst og Adama Darboe honum næstur með 22 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.

Fyrir gestina úr Breiðholti var Triston Simpson atkvæðamestur með 14 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá bætti Collin Pryot við 20 stigum.

Hvað svo?

KR á leik næst þann 7. mars gegn Tindastól í Síkinu á Sauðárkróki. ÍR leika ekki fyrr en þremur dögum seinna heima í Hellinum í Breiðholti þann 10. mars, einnig gegn Tindastól.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -