Snæfell hafði tvö stig í Röstinni í gærkvöldi þegar liðið heimsótti Grindavík í Domino´s deild kvenna. Hólmarar eru því áfram í 2. sæti deildarinnar en Grindavík í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar.
Grindavíkurstelpur virtust tilbúnar í þennan leik en leiddu þær hann til að byrja með. Snæfell náði að jafna en Grindavík tók forystuna á ný. Þær komust 10 stigum yfir 22-12 og endaði leikhlutinn 22-14 Grindavík í vil. Crystal Smith leiddi Grindavíkurstelpurnar áfram en Petrúnella kom með tvo þrista í lok leikhlutans sem gerði það að verkum að þær náðu 10 stiga forystu.
Snæfell nálgaðist Grindavík hægt og rólega og þegar 6 mínútur voru búnar af leikhlutanum var staðan jöfn, 28-28. Snæfell var yfir í lok leikhlutans 30-32. Snæfellsstelpurnar spiluðu vel saman og var engin ein sem stóð upp úr heldur unnu þær sem heild. Stigahæst fyrir þær í hálfleik var Kieraah Marlow með 10 stig.
Grindavík missti allt niður þegar í þriðja leikhluta var komið. Snæfell jók því forystuna og var ekki mikil von fyrir Grindavík. Hann endaði í 44-60 og Snæfell því 16 stigum yfir.
Í fjórða leikhluta var ekki mikil spenna fyrr en tvær og hálf mínúta voru eftir. Þá var eins og Grindavík hafi áttað sig á því ekki væri öll von úti enda voru þær búnar að minnka muninn í sex stig. Baráttan varð meiri hjá þeim en allt gerðist ekki og unnu Snæfell leikinn 71-76.
Stattið datt út í þrjár mínútur í fjórða leikhluta og því ekki hægt að fara alfarið eftir þeim tölum sem fram koma í tölfræðinni nema stigaskorinu.
En fyrir heimaliðið var Crystal Smith með 27 stig og Petrúnella Skúladóttir með 22 stig.
Fyrir snæfell var það Hildur Björg Kjartansdóttir sem var stigahæst með 22 stig. Kieraah Marlow var með 18 stig og Hildur Sigurðardóttir með 16 stig.
Umfjöllun og mynd/ Jenný Ósk