spot_img
HomeFréttirHörður Helgi: Misstum einbeitinguna en Carlos var flottur

Hörður Helgi: Misstum einbeitinguna en Carlos var flottur

Nýliðar Skallagríms eru í 8. sæti Domino´s deildar karla eftir sigur á Fjölni í kvöld, lokatölur 85-83 Skallagrím í vil þar sem Carlos Medlock gerði 40 stig í liði heimamanna. Haminn Quaintance lék ekki með Borgnesingum í kvöld sökum meiðsla. Fjölnismenn fengu lokaskot þegar 0,3 sekúndur lifðu leiks en það vildi ekki niður, Fjölnir í 9. sæti með 8 stig en Skallagrímur með 12 stig í 8. sæti.
 
 
Karfan.is ræddi við Hörð Helga Hreiðarsson eftir leik en Hörður skoraði 11 stig í leiknum, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. ,,Við vorum tíu stigum yfir allan leikinn en misstum einbeitinguna hér í lokin að mér fannst og næstum búnir að henda leiknum frá okkur, Medlock var samt rosalega flottur og hann klárar vel,” sagði Hörður Helgi og kvaðst sigrinum feginn.
 
,,Það er gott að hafa unnið þennan leik eftir tvö síðustu töp, við spilðum mun betur en gegn Njarðvík um daginn. Að hafa svo Pál Axel og Sigmar í liðinu er kannski það sem skyldi liðin að í kvöld, Páll er vel til þess fallinn að halda okkur á jörðinn og mikill sigurvegari. Sigmar er reyndur og Carlos gefur okkur þessa þætti líka og dró svo lestina í kvöld,” sagði Hörður en Borgnesinar lönduðu sigrinum þrátt fyrir fjarveru Haminn sem hefur leikið á köflum einstaklega vel fyrir nýliðana.
 
,,Þetta var skemmtilegur leikur í kvöld og stuðningurinn góður frá áhorfendum þó vissulega hafi fleiri mætt á leiki hjá okkur. Það er alltaf krafa að vinna hér í Borgarnesi og maður má einfaldlega ekki tapa á þessum heimavelli, ég fæ bara að heyra það í vinnunni ef við töpum hér heima enda fylgjast allir vel með,” sagði Hörður sem starfar í Grunnskólanum í Borgarnesi.
 
Næsti leikur Borgnesinga er gegn botnliði ÍR í Hertz Hellinum. ,,Við megum alls ekki koma inn í þann leik með hangandi haus. ÍR er með sterkt lið og þá má ekki vanmeta. Fyrir tímabilið spáði ég þeim ofarlega í töfluna en þó þeir séu á botninum núna veit ég að leikurinn gegn þeim verður erfiður.”
 
Fjölnismenn gerðu 30 stig á Skallagrím í fyrsta leikhluta í kvöld en heimamenn þéttu vörnina og héldu gestunum í 11 stigum í öðrum leikhluta, staðan 53-41 í hálfleik. Jafnt var á með liðunum í þriðja leikhluta sem fór 21-22 fyrir Fjölni og Grafarvogspiltar hertu svo róðurinn í þeim fjórða en þeir unnu lokaleikhlutann 11-20 og áttu lokaskotið en það dugði ekki til. Skallagrímsmenn komnir aftur á sigurbraut um sinn en Fjölnismenn hafa tapað fimm deildarleikjum í röð!
 
 
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson: Carlos Medlock sækir að Björgvini Hafþóri Ríkharðssyni í Borgarnesi í kvöld.
  
Fréttir
- Auglýsing -