spot_img
HomeFréttirSannfærandi Stólar í Fjósinu

Sannfærandi Stólar í Fjósinu

Borgnesingar voru leikmönnum Tindastóls lítil fyrirstaða er liðin áttust við í Borgarnesi í 16.umferð úrvalsdeildarinnar.  Norðanmenn þar með búnir að hífa sig úr botnsætinu og eygja skyndilega von um að geta náð sæti í úrslitakeppninni eftir 2 sigurleiki í röð.  Skallagrímsmenn hins vegar búnir að tapa tveimur rándýrum leikjum í röð og það stórt.  
 
Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og útlit fyrir að hörkuspennandi leikur væri í vændum.  Eða þar til undir lok 1.leikhluta þegar Tindastóll náði fínni forystu.  Forystu sem liðið lét ekki af hendi þar til yfir lauk.  Staðan að loknum fyrsta leikhluta 14-21.  Gestirnir mættu svo dýrvitlausir í næsta fjórðung dyggilega stjórnað og studdir af Bárði þjálfara.  Mótstaðan var lítil sem engin af hálfu heimanna sem virkuðu áhugalausir og alveg ráðþrota í öllum sínum aðgerðum.  Stólarnir náðu mest 16 stiga forystu og leiddu með 15 stigum í hléi 32-47.
 
Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og þeim fyrri lauk.  Gestirnir höfðu trú á verkefninu og vissu hvað þyrfti til á meðan and og stemmingsleysi réði ríkjum hjá heimamönnum.  Þrátt fyrir ágætis sprett Skalla um miðjan 3.leikhlutan hvar Páll Axel setti m.a tvo þrista í röð dugði það á öngvan hátt til að kveikja smá líf í samhrerjum hans. Norðanmenn skoruðu síðustu körfur leikhlutans og kæfðu lítinn vonarneista fjósamanna í fæðingu. 
 
Síðasti leikhlutinn var svo nánast formsatriði fyrir baráttuglaða sveiflukóngana úr Skagafirðinum því heimamenn virkuðu almennt vindlausir.  Fjósamennirnir galvösku í stúkunni voru þagnaðir fljótlega eftir hlé og stundum hefði mátt heyra saumnál detta, eða framsóknarmann skipta um skoðun slík var deyfðin í fjósinu.  Eitthvað sem er ekki vanalegt á þeim bænum
 
Tindastólsmenn eiga hrós skilið fyrir baráttu sína. Þeir mættu með bakið upp að fjósveggnum fræga og börðust allir sem einn.  Liðsheildin var feyki sterk og allir gáfu sig 100% í verkefnið sem fyrir þá var lagt.  Helgi Rafn var þeirra atkvæðamestur með 18 stig og 12 fráköst.  Helgi Freyr kom honum næstur með 15 stig.  Erfitt er að nefna einhvern jákvæðan punkt í leik heimamanna, það var helst að Davíð og Hörður væru að sýna einhverja baráttu, en barátta á að vera sjálfsagður hlutur í kappleik sem þessum.  Sigmar virtist vera sá eini sem þorði að taka af skarið undir lokin og fær hann prik í kladdann fyrir það. Carlos var þeirra atkvæðamestur með 17 stig.  skotnýting hans var hinsvegar ömurleg 6/22.  Hörður kom honum næstur með 12 þar af 11 í fyrri hálfleik.
 
Stólarnir þar með komnir úr fallsæti með 10 stig.  Skallagrímur enn í því áttunda með 12 stig.  Þeir eru hinsvegar með lakari innbyrðisárangur gegn KFÍ, ÍR og Tindastól sem gæti skipt sköpum þegar upp er staðið
 
 
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson – Helgi Rafn Viggósson fyrirliði Tindastóls sækir að körfu Borgnesinga í Fjósinu í kvöld.
 
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson
Fréttir
- Auglýsing -