Hlynur Bæringsson leikmaður Sundsvall í Svíþjóð stóð ekki lengi á sínum svörum varðandi bikarhelgina framundan.
Keflavík-Valur
Ég spái Val sigri þrátt fyrir að Keflavík sé efst í deildinni, ef mér skjátlast ekki þá eru Valsstúlkur nýbúnar að vinna í Keflavík og það hlýtur að gefa þeim sjálfstraust fyrir þennan leik. 80-79 fyrir Val þar sem fyrrum Sundsvall búinn Ragna Margrét verður maður leiksins.
Ég veit nú ekki mikið um styrk og veikleika liðanna en þjálfararnir báðir hljóta að leggja mikið uppúr því að hafa spennustigið rétt til að leikmenn geti sýnt sitt besta við nokkuð krefjandi aðstæður.
Grindavík-Stjarnan
Þetta verður mjög skemmtilegur og spennandi leikur, ég held að margir leikmanna beggja liða hafi unnið þennan titil á ferlinum, þeir þekkja því hvað þarf til. Sama má segja um þjálfarana, þeir eru vanir því að vera í höllinni og hafa margoft unnið stóra leiki þar.
Þessi lið eru mjög áþekk að mörgu leyti, fínt jafnvægi á milli þess að skora inní teig sem og fyrir utan. Leikstíllinn nokkuð svipaður. Leikmenn hafa spilað nokkuð lengi saman og þekkjast vel.
Stjarnan vinnur þetta með flautukörfu frá Justin Shouse, ætli það verði ekki vinstri handar sveifluskot, honum þykir nú fátt skemmtilegra en að henda einu þannig upp. Fyrir þannig skot eiga menn skilið að vera valinn maður leiksins.