Jón Halldór Eðvaldsson bílasali með meiru og fyrrum þjálfari kvennaliðs Keflavíkur ætti að þekkja það nokkuð vel að fara í Laugardalshöllina sem þjálfari en þangað fór hann ár eftir ár með lið sitt með misjöfnum árangri. Jonni eins og hann er jafnan kallaður spáði í spilin fyrir helgina.
Keflavík – Valur 76-75
Þetta er athyglisverður leikur. Valur núbúnar að vinna Keflavík og tapa síðan fyrir Njarðvík. Keflavík búnar að tapa tveimur leikjum í vetur og báðum á heimavelli. Þetta ætti að segja okkur það að Keflavík tapi ekki þessum leik. En það skiptir engu máli hvað hefur gerst fyrir þennan leik, þetta er einn leikur, þetta er spurning um vilja. Ég held að bestu leikmenn úrvalsdeildar kvenna Pálína og Birna komi til með að vega þungt í þessum leik, þær þekkja þetta betur en margur annar. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvernig Gústi hugsar sér að gera þetta, hann reynir eflaust eitthvað svipað og í leiknum í Keflavík nú um daginn. En til þess að það gangi þá þarf hann að fá topp framlag frá 7 leikmönnum. Þjálfari Keflavíkur annálaður snillingur í svona leikjum en þegar kemur að leikskipulagi er hann alveg grillaður og jafnvel týndur og er ég viss um að hann viti ekkert hvað hann eigi að gera. En þetta snýst ekkert um leikskipulag á svona degi heldur snýst þetta fyrst og fremst um dagsform og held ég að Sigurður sé með vinninginn í því að koma sínum leikmönnum á réttan stað hugarfarslega. Nú er ég samt ekki að hrósa Sigurði!!!! Það verða engir leikmenn sem koma á óvart, Pálína og Birna verða góðar. Keflavík vinnur í hörkuleik og legg ég til að fólk taki leikinn upp og horfi á endursýninguna á flautukörfunni, hún er gild!!!!!.
Maður leiksins verður Gamla Brínið 😉
UMFG – Stjarnan 91-74
Þetta verður ekki spennandi leikur ( vona að ég hafi rangt fyrir mér ). Það virðist eitthvað vandamál vera í herbúðum Stjörnumanna. Stjarnan er sennilega með best mannaða lið úrvalsdeildarinnar en það virðist vera einhver krísa í gangi hjá þeim. Gæti haft eittvað með nýja leikmanninn, Jarrid Frye, hjá þeim að gera. Svo virðist vera eins og menn viti ekki hvar þeir standi eftir að hann kom. Ef að allt væri í sóma hjá Stjörnumönnum þá liti þetta öðruvísi út. Ég finn til með Teit að þurfa að vera díla við þetta á þessum tímapunkti.
Grindavík er á hinn bóginn í góðum fíling þessi misserin, allir kátir og glaðir. Mikil stemming í bænum, risa þorrablót á laugardagskvöldið. Leikskipuleg þjálfarana breytist held ég ekkert frá því sem verið hefur. Þetta er eins og hjá stelpunum, dagsformið. Ég held að krísan sem er í gangi hjá Stjörnumönnum geri Grindvíkingum auðvelt fyrir.
Ef þú tekur leikmennina útúr jöfnunni þá ertu með tvo þjálfara sem eru miklir sigurvegarar og kunna betur en margur að vinna, þannig að ef þeir væru að spila einn á einn mundi ég veðja á jafntefli. Ég tel að Teitur nái ekki að hrista slenið af sínum strákum. Sverrir verður með sitt lið á tánum og eins og áður segir þá verður þetta auðveldur sigur Grindavíkur.
Ég held að Zeglinski verður með 70% skotnýtingu og Broussard verður með tröllaleik. Justin verður flottur að vanda en það dugar ekki til.
Maður leiksins verður Zeglinski.
Maður leiksins verður Zeglinski.