spot_img
HomeFréttirHrafn Kristjánsson spáir fyrir bikarúrslit

Hrafn Kristjánsson spáir fyrir bikarúrslit

 Þá er komið að Hrafni Kristjánssyni að henda fram sinni spá fyrir leiki dagsins í dag. 
 Keflavík-Valur: Hef trú á að Keflavík hafi þetta í jöfnum leik. Þær hafa fleiri stelpur innan sinna raða sem hafa klárað svona stóra leiki og eiga harma að hefna síðan í síðasta leik liðanna.
Ekki viss um að nokkur leikmaður Keflavíkur eigi eftir að koma á óvart en spái því að Pálína eigi eftir að draga vagninn, sérstaklega varnarlega. Valsmenn tefla ekki fram erlendum leikstjórnanda og það ætti því að vera lag fyrir Pálínu að sýna styrkleika sinn í boltapressu gegn þeim. Þar held ég einmitt að Siggi eigi eftir að tefla sínu liði sterkt fram, ég býst við Keflavíkurstelpunum grimmum varnarlega, jafnvel í pressu allan völlin við og við og að þær reyni þannig að ná stjórn á hraða leiksins.
 
Grindavík-Stjarnan: Þessi leikur verður veisla! Hér mætast tvö lið sem eru gríðarlega vel mönnuð. Þó Stjarnan sé búin að vera í lægð í deildinni veit ég fyrir víst að þeir mæta vel stemmdir í þennan slag. Grindavíkurliðið hefur sýnt mikinn stöðugleika og gæti allt tímabilið sem breytist ekkert um helgina.
Teitur og Sverrir mæta væntanlega með sín lið vel undirbúin til leiks og sjálfsagt lítið sem kemur á óvart í leik andstæðinganna. Stjarnan vill stjórna hraðanum, stilla upp á hálfum velli og slútta sóknunum sínum af nákvæmni á meðan Grindvíkingar koma væntanlega til með að keyra upp tempoið öllu meira. Mér finnst stærsta atriði leiksins vera hvernig Stjörnumenn ætla sér að stöðva Broussard í liði Grindvíkinga. Það gæti orðið erfitt fyrir menn eins og Fannar og Jovan að eiga við hann ef honum er teflt upp í fjarkanum þannig að þetta gæti orðið einhver refskák hjá þjálfurum liðanna. Þegar mestu skiptir má búast við að Frye og Broussard hlaði í magnað einvígi sem vert verður að fylgjast vel með.
Ég spái Stjörnunni sigri á síðustu sekúndum…ætli Oddur Kristjáns dúkki ekki upp með lykilþrist í leiknum og komi þannig einhverjum á óvart sem ekki þekkja til hans.
Fréttir
- Auglýsing -