spot_img
HomeFréttirLeið liðanna í Höllina

Leið liðanna í Höllina

Ef það dylst einhverjum þá fara Poweradebikarúrslitin í karla- og kvennaflokki fram í dag í Laugardalshöll. Við ætlum að líta eldsnöggt á leiðir liðanna í bikarúrslit 2013.
 
Kvennaflokkur
 
Keflavík:
Keflvíkingar fengu engan heimaleik í bikarnum þetta árið, fyrst lá leiðin í gegnum Hauka í Schenkerhöllinni 84-89. Næst lá leiðin í DHL Höllina þar sem Keflavík hafði betur 56-66 og í undanúrslitum mættust Snæfell og Keflavík í Stykkishólmi þar sem Keflvíkingar unnu spennandi 70-73 sigur.
 
Valur:
Valskonur byrjuðu heima gegn ríkjandi bikarmeisturum Njarðvíkur og lögðu grænar 66-65 í æsispennandi slag þar sem Njarðvíkingar fengu lokaskotið sem vildi ekki niður og var það einnig umdeilt þar sem gestirnir úr Ljónagryfjunni vildu meina að brotið hefði verið á Lele Hardy. Það vantar aldrei dramatík í bikarkeppnina! Næst héldu Valskonur á útivöll og lögðu Grindavík 70-78 og í undanúrslitum mættust Hamar og Valur þar sem Valskonur rúlluðu yfir 1. deildarlið Hamars 39-86.
 
Karlaflokkur
 
Stjarnan:
Garðbæingar mættu bara úrvalsdeildarliðum á leið sinni í Höllina. Fyrst kom sigur í Ásgarði gegn Skallagrím 84-78. Í 16 liða úrslitum mætti KFÍ í Garðabæ, lokatölur 97-78 og í 8-liða úrslitum voru Garðbæingar enn einu sinni á heimavelli þegar þeir lögðu ÍR 94-77. Stjarnan hélt svo í Stykkishólm í undanúrslitin þar sem nokkuð sannfærandi sigur kom gegn heimamönnum í Snæfell, 71-92.
 
Grindavík:
Léttmeti í fyrsta leik, 98-52 gegn Leikni í 2. deild karla. Í næstu umferð mætti úrvalsdeildarlið til leiks og höfðu Grindvíkingar þá 101-98 sigur á Fjölni. Í 8-liða úrslitum var andstæðingurinn úr 1. deild og það úr næsta nágrenni eða úr Sandgerði, 68-112 útisigur gegn Sandgerðingum og í undanúrslitum mættust Keflavík og Grindavík í Toyota-höllinni þar sem Grindavík slapp með 83-84 sigur en Keflvíkingar áttu lokaskotið sem var gegnumbrot hjá Billy Baptist og dansaði það af hringnum.
  
Fylgstu með Karfan.is á Twitter: 

@Karfan_is

Fréttir
- Auglýsing -