spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKraftmiklir Haukar höfðu sigur í Ljónagryfjunni

Kraftmiklir Haukar höfðu sigur í Ljónagryfjunni

Haukastúlkur áttu harma að hefna þegar þær mættu í þennan leik.  Fyrir viku töpuðu þær á heimavelli fyrir Njarðvík og mikið undir enda styttist óðum í fjögurra liða úrslit í bikarkeppninni en þar mætast einmitt þessi lið. 

Leikurinn var frekar hefðbundinn í upphafi og mikið um pústra og líkamstékk á báða bóga en Haukastúlkur virtust betur undir það búnar núna og tóku fullan þátt.  Dómarar voru með góð tök á leiknum og leyfðu honum að fljóta sem gerði þetta að eðal skemmtun.  Eftir fyrsta leikhluta var Njarðvík yfir 18 -15 og leikurinn frekar jafn í alla staði. 

Í öðrum leikhluta sigu Haukastúlkur framúr með þéttri vörn og góðri hittni en Bríet naut sín vel í byrjunarliðinu og var að setja hann að utan.  Hjá Njarðvík þá dró Diane og Vilborg vagninn í byrjun en Lavinia tók vel á mótherjum beggja vegna vallarins. Helena Sverrisdóttir fékk snemma sína aðra villu og fékk því að verma bekkinn sem var skynsamlegt í stöðunni.  Það virtist ekki koma að sök en þjálfarar Hauka spiluðu sínum mönnum feykivel og náðu allir leikmenn fínni innkomu sem skóp forystu Hauka snemma í öðrum leikhluta sem hélst út leikhlutann.  Njarðvík aftur á móti átti í basli með að ná opnum skotum nema vel úti því Haukastúlkur hreinlega skelltu teignum í lás. Yfirburði Hauka héldu áfram í þriðja leikhluta og náðu þær að byggja ofan á frábæran annan leikhluta með þéttri vörn og skipulögðum sóknum sem enduðu með skipulögðum skotum og hittnin fín. Njarðvík átti kaflaskiptari leik og í þriðja leikhluta lentu þær í vandræðum hreinlega að fá góð skot því Haukar tóku það vel á þeim og stigu þær út.  

Fjórði og síðasti leikhlutinn var brekka fyrir Njarðvík en Helena Rafnsdóttir mætti spræk inn í þann leikhluta en Alaiyah, Díane og Lavinia virtust ekki ná sér almennilega á strik þó þær leggðu allt í sölurnar að virtist en leikklukkan rann nokkrum sinnum út án þess að þær næðu skoti á körfuna. 

Leikurinn endaði 86-57 fyrir Haukastúlkur sem gerðu vel því þær þurftu að vinna með yfir 10 stigum til að eiga séns á deildarmeistaratitlinum.  Krafturinn og hraðinn var aðdáunarverður hjá báðum liðum og ekkert gefið eftir en Sólrún varð fyrir því óláni að brjóta tennur í lok leiks þegar hún lenti í samstuði við leikmann Njarðvíkur og sendum við henni batakveðjur en hún kom sterk inn og setti flott stig þegar á þurfti að halda. 

Að öllum ólöstuðum þá var Keira óstöðvandi í sókn og olli Njarðvík miklum vandræðum en Haukastúlkur voru virkilega sterkar og fagmannlega í öllum sínum aðgerðum með góða hittni að utan og virtist þá engu skipta hver tæki skotin.  Hjá Njarðvík var Diane virkilega góð í upphafi leiks sem og Vilborg en Ayisah virtist aðeins þreytt en engan skal undra að eitthvað þurfi undan að láta þegar leikið er svona þétt.  Lavinia var kletturinn í vörn og sókn og ekkert grín að þurfa að kljást við hana beggja vegna vallarins og gerir hún vel í því að þreyta fólk og rífa fráköst. 

Verðskuldaður Haukasigur en kannski fullstór miðað við getu beggja liða. Það verður augnakonfekt að fylgjast með þessum liðum í vor þegar bikar er undir og spilað fyrir fánann og stoltið. 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -