,,ÍR er með sterkt lið og tóku nýlega inn nýjan þjálfara og þar eru menn enn að stilla sig saman. Eric Palm myndi ég svo segja að væri einn besti erlendi leikmaður deildarinnar, setti einhver 28 stig á okkur í leiknum og þar af 23 í hálfleik. Við vorum samt lítið að spá í því, ef hann skorar 30 og við vinnum þá skiptir það engu máli,” sagði Kristófer Acox sem kom sterkur af bekk KR í gær og var einn þeirra besti leikmaður í stórsigri gegn ÍR í Domino´s deild karla.
,,Það vita allir að við erum með djúpan og breiðan hóp og ef allir leggja í púkkið þá er mjög erfitt að vinna okkur,” sagði Kristófer en stöðugleikinn mætti vera meiri í vesturbænum. ,,Við erum náttúrulega alltaf að reyna að toppa en þrátt fyrir það höfum við verið mjög kaflaskiptir í vetur. Eins og áður hefur komið fram er það yfirleitt þriðji leikhluti sem verður okkur að bana en það er ekkert annað í boði en að vinna í því og koma síðan tilbúnir í úrslitakeppnina,” sagði Kristófer og nú snýst allt um það hjá KR að næla sér í heimavallarrétt þegar í úrslitakeppnina er komið.
,,Já, það snýst allt um það. Við ætlum að fara eins hátt upp töfluna og við getum,” sagði Kristófer sem gerði 17 stig gegn ÍR og tók 7 fráköst ásamt því að verja 3 skot.