Fjölnir tók á móti Val í Dalhúsum í gær í 24. umferð Dominosdeildarkvenna. Val tókst að hrista af sér slenið eftir 4 leikja taphrinu, ef bikarúrslitaleikurinn er talinn með, og sigruðu Fjölni örugglega 74-80. Ég leyfi mér að segja örugglega því þrátt fyrir aðeins 6 stiga sigur þá var Valur 22 stigum yfir með 4 mínútur til leiksloka og var sigurinn aldrei í hættu þó að Fjölni hafi tekist að klóra vel í bakkann. Fjölni gekk alveg hrikalega illa í upphafi leiks og tapaðist leikurinn í raun strax. Jaleesa Butler var óstöðvandi í leiknum og lék sér að Fjölnisstúlkum. Hún skoraði 31 stig, tók 17 fráköst, var með 10 varin skot og 8 stoðsendingar. Alveg hreint magnaður leikur hjá henni. Þórunn Bjarnadóttir er full sjálfstrausts eftir að hafa næstum því tryggt Val sigur á móti KR í seinustu umferð með glæsilegum þrist og átti glimmrandi leik og setti meðal annars tvo þrista. Fjölnir á ennþá tölfræðilegar líkur á því að halda sér uppi í deildinni en eru því miður að öllum líkindum á leiðinni niður um deild.
Byrjunarlið Fjölnis: Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir, Fanney Lind Guðmundsdóttir, Bergdís Ragnarsdóttir, Britney Jones og Bergþóra Holton Tómasdóttir.
Byrjunarlið Vals: Jaleesa Butler, Hallveig Jónsdóttir, Þórunn Bjarnadóttir, Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir.
Fjölnir byrjaði leikinn í gær alveg skelfilega. Ekkert fór ofan í hjá þeim þrátt fyrir góð skot eða sniðskot. Boltinn skoppaði hreinlega alltaf af hringnum. Jaleesa Butler fór fyrir Valsstúlkum sem komust í 3-22 áður en Fjölni tókst að “laga” stöðuna í 7-22 í enda leikhlutans. Britney Jones skoraði 6 af þessum 7 stigum Fjölnis, en það var ekki af því að hún væri sú eina sem væri að skjóta, það bara gekk ekkert upp nema hjá henni.
Fjölnir náði að spila körfubolta í öðrum leikhluta og hélt í við Val en tókst ekki að minnka muninn. Gríðarlega mikið var um slæmar sendingar hjá þeim og voru þær með 9 stykki í leikhlutanum.
Í þriðja leikhluta varð munurinn minnst 6 stig í þrígang en Valur endaði þó með 10 stiga forskot.
Lilja Ósk Sigmarsdóttir átti ansi hreint góða innkomu í fjórða leikhlutanum þar sem hún skoraði 9 stig og hjálpaði Val að komast í 22 stiga forustu. Með sigurinn vissan leyfði Ágúst Björgvinsson Elsu Rún Karlsdóttur, Sóllilju Bjarnadóttur og Kristínu Óladóttur að spreyta sig. Þrátt fyrir það neituðu Fjölnisstúlkur að gefa upp vonina og Britney Jones, Hugrún Eva Valdimarsdóttir og Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir reyndu hvað þær gátu til að minnka muninn en það var því miður of seint og ekki nægur tími. Þeim tókst þó að minnka muninn í 6 stiga tap sem lítur ekkert illa út á prenti en gefur þó ekki rétta mynd af leiknum.
Stigahæstar hjá Fjölni voru: Britney Jones 38 stig/7 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Bergdís Ragnarsdóttir 7 stig/15 fráköst/5 varin skot, Fanney Lind Guðmundsdóttir 7 stig/6 fráköst.
Stigahæstar hjá Val voru: Jaleesa Butler 31 stig/17 fráköst/10 varin skot/8 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Kristrún Sigurjónsdóttir 17 stig/8 fráköst/5 stolnir boltar/4 stoðsendingar, Þórunn Bjarnadóttir 9 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar
Leikmaður leiksins: Jaleesa Butler