spot_img
HomeFréttirGrindavík bikarmeistari í 11. flokki karla

Grindavík bikarmeistari í 11. flokki karla

Þriðji leikur dagsins í bikarúrslitum yngri flokka var viðureign Grindavíkur og Njarðvíkur í 11. flokki karla. Grindavík stóð uppi sem sigurvegari, 77-66 í kaflaskiptum leik. Grindavík byrjaði leikinn af krafti og yfirspiluðu Njarðvík í fyrri hálfleik og leit út fyrir að eftirleikurinn að bikarnum yrði þeim auðveldur. Svo varð nú aldeilis ekki og átti Njarðvík magnaða endurkomu í þriðja leikhlutanum þar sem að þeir yfirspiluðu Grindavík 15-3 og jöfnuðu leikinn. En því miður vill það oft verða þannig að mönnum endist aðeins orkan til að jafna eins og raunin varð hjá Njarðvík. Það tók því Grindavík ekki langan tíma til að komast yfir aftur og svo voru þeir búnir að gera útum leikinn stuttu eftir miðbik fjórða leikhluta.
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Jón Axel Guðmundsson, Fannar Elíasson, Magnús Ellertsson, Hinrik Guðbjartsson og Nökkvi Harðarson.
 
Byrjunarlið Njarðvíkur: Magnús Már Traustason, Hilmir Karl Hjörvarsson, Kristinn Pálsson, Atli Karl Sigurbjartsson og Ragnar Helgi Friðriksson.
 
Hilmir Kristjánsson skorar fyrstu tvær körfur leiksins og bætti Jón Axel Guðmundsson við þrist til að koma Grindavík í 7-2. Ragnar Friðriksson svarar svo fyrir Njarðvík með 5 stigum og jafnar leikinn 7-7. Grindavík stjórna svo leiknum næstu mínúturnar og komast 13-7 yfir. Þá tók við kafli þar sem að nokkuð jafnræði var með liðunum sem skiptust á að skora. Grindavík leiddi 19-13 að loknum fyrsta leikhluta eftir að Jón Axel var sendur í tvígang á vítalínuna þar sem að hann nýtti öll vítaskotin sín.
 
Magnús Ellertsson smellir niður þrist í fyrstu sókn Grindavíkur en Kristinn Pálsson svaraði um hæl með körfu að viðbættu vítaskoti. Kristinn virtist vera á fljúgandi ferð í opið sniðskot en Jón Axel neitaði honum um það með því að verja skotið hans á glæsilegan hátt. Njarðvík ná þó að minnka muninn með ferðum á vítalínuna. Grindavík voru mikið að brjóta en fiskuðu svo glæsilega ruðning á Magnús Már Traustason. Um miðbik annars leikhluta voru Grindavík komnir 11 stigum yfir í stöðunni 34-23 og gekk mjög vel að stöðva sókn Njarðvíkur. Ekkert gekk hjá Njarðvík og skorðu þeir ekki í opnum leik á 7 mínútna kafla og aðeins 7 af 19 stigum sínum í leikhlutanum. Þrátt fyrir allar þessar ferðir á vítalínuna voru þeir samt 12 stigum undir í hálfleik, 44- 32.
 
Stigahæstir í hálfleik voru Jón Axel Guðmundsson með 21 stig/6 fráköst og Hilmir Kristjánsson með 12 stig/10 fráköst fyrir Grindavík og hjá Njarðvík voru það Magnús Már Traustason með 8 stig/4 fráköst/2 stoðsendingar/3 stolna bolta, Atli Karl Sigurbjartsson með 8 stig/3 fráköst og Ragnar Helgi Friðriksson með 8 stig/2 fráköst/2 stolna bolta.
 
Hinrik Guðbjartsson fékk dæmda á sig sína fjórðu villu snemma í þriðja leikhlutanum. Í kjölfarið smellti Hilmir Karl Hjörvarsson niður þrist fyrir Njarðvík og síðan fengu Grindavík tvívegis dæmdar á sig sóknarvillur. Ekkert að gerast hjá Grindavík og Jóhann Árni Ólafsson neyddist til að taka leikhlé eftir að Kristinn Pálsson skoraði og minnkaði muninn niður í 5 stig. Leikhléið hafði engin áhrif og Njarðvík hélt áfram að sækja á og smellti Ragnar Helgi Friðriksson niður þrist. Hann jafnaði svo leikinn fyrir Njarðvík í stöðunni 47-47. Njarðvík því búnir að yfirspila Grindavík 15-3 á þessum tímapunkti. Þá loksins vöknuðu Grindavík til lífsins og skellti Ingvi Þór Guðmundsson niður tveimur þristum á stuttum tíma til að koma Grindavík í 55-50. Njarðvík enduðu þó leikhluta af krafti og skoruðu seinustu 4 stig leikhlutans og þar af flautukörfu eftir að hafa fiskað enn einn ruðninginn á Grindavík,
 
Jón Axel reyndi að slökkva í meðbyr Njarðvíkur með því að smella niður þrist en hafði ekki erindi sem erfiði. Ingvi Þór setti svo niður sinn þriðja þrist og koma Grindavík í 61-56. Þá var loks komið að Grindavík að fiska ruðning á Njarðvík. Njarðvík neytaði þó að gefast og hélt sér inn í leiknum. Það entist ekki lengi og eftir 5 stig frá Hinriki Guðbjartssyni voru Grindavík komnir 9 stigum yfir. Með tvær og hálfa mínútu til leiksloka innsiglaði svo Jón Axel sigur Grindavíkur með góðri körfu sem kom þeim í 71-60. Lokatölur urðu 77-66. 
 
Stigahæstir hjá Grindavík voru: Jón Axel Guðmundsson 32 stig/13 fráköst, Hilmir Kristjánsson 16 stig/17 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 14 stig.
 
Stigahæstir hjá Njarðvík voru: Ragnar Helgi Friðriksson 25 stig/3 fráköst/3 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Kristinn Pálsson 12 stig/10 fráköst/5 varin skot, Atli Karl Sigurbjartsson 10 stig/7 fráköst.
 
Leikmaður leiksins: Jón Axel Guðmundsson
 
 
 
Fylgstu með Karfan.is á Twitter:

@Karfan_is

Fréttir
- Auglýsing -