Ingi Þór Steinþórsson hefur framlengt samningi sínum í Stykkishólmi til ársins 2016 en samningar þess efnis voru undirritaðir í Hólminum í dag. Ingi varð fyrstur þjálfara til að koma með Íslandsbikarinn í Hólminn og ljóst að stjórn félagsins vill hafa gullþjálfarann áfram í brúnni.
Ingi Þór tók við Snæfell tímabilið 2009-2010 og gerði félagið að meisturum á sínu fyrsta ári í Stykkishólmi. Sama ár varð liðið einnig bikarmeistari. Ingi hefur verið við stjórnartaumana hjá bæði karla- og kvennaliði félagsins og verður svo áfram en kvennaliðið lék m.a. til bikarúrslita gegn Njarðvíkurkonum á síðustu leiktíð og máttu þar sætta sig við silfrið.
Uppskeran hjá Inga í Hólminum hefur því verið ansi myndarleg á þessum stutta tíma. Karfan.is náði tali af Inga í dag þegar lokið hafði verið við nýja samninginn og sagði hann: ,,Ég er stoltur með að stjórnin sýni mér það traust sem þeir eru að gera í þriðja skipti. Hérna er gott umhverfi að vinna í, með öfluga stjórn og mikið af góðu fólki í og kringum félagið. Það er töluverð vinna sem hver og einn er að leggja á sig hérna til að dæmið gangi upp, leikmenn og stjórnarmenn. Það eru allir metnaðarfullir að láta dæmið ganga upp og í svoleiðis umhverfi er erfitt að láta sig hverfa á vit annara verkefna. Nú er úrslitakeppnin framundan hjá báðum hópum og það klárlega aðalmálið sem stendur uppúr en að henni lokinni hefjum við okkar vinnu að safna saman liði fyrir næsta tímabil.”
Mynd/ Eyþór Benediktsson: Ingi og Gunnar Svanlaugsson formaður KKD Snæfells innsigla hér nýja samninginn.