spot_img
HomeFréttirAðferðir Gunnars og Ásdísar vekja athygli erlendis

Aðferðir Gunnars og Ásdísar vekja athygli erlendis

Harðjaxlinn Gunnar Einarsson hefur vakið athygli fyrir þjálfunaraðferðir sínar en hann og eiginkona hans Ásdís Þorgilsdóttir reka saman einka.is en bæði eru þau menntaðir einkaþjálfarar. Síðastliðið sumar var landsliðsmaðurinn Jón Arnór Stefánsson í læri hjá Gunnari og bar aðferðum hans söguna einkar vel.
 
Styrktarþjálfari Jóns hjá Zaragoza í ACB deildinni á Spáni vildi vita hvað Jón hafði verið að gera í sumrinu því eins og meðfylgjandi mynd sýnir sprengdi hann utan af sér allar mælingar frá fyrra ári: ,,…stekk hærra og sprengjan er í bullinu,” lét Jón hafa eftir sér.
 
,,Já þetta eru heldur betur góð meðmæli á mínar þjálfunaraðferðir og æfingar í einkaþjálfuninni,” sagði Gunnar Einarsson í samtali við Karfan.is en nú eru margir sem farnir eru að huga að næstu leiktíð þó úrslitakeppnin sé í fullum gangi. Það verður nánast daglegur viðburður á næstu vikum að lið falli úr keppni og þá ekki seinna vænna en að huga að sumrinu, það er jú tíminn til að bæta sig og koma í toppstandi inn í næstu leiktíð.
 
Jón Arnór:
 
,,Ég ákvað að spyrja Gunnar hvort hann gæti æft með mér eftir að ég heyrði að hann væri kominn á fullt í styrktarþjálfun. Gunni leggur áherslu á þá hluti sem ég vildi bæta. Hans þjálfun er mjög áþekk þeirri sem ég hef fengið í Bandaríkjunum og bætir bæði sprengikraft og snerpu ásamt því að virkja allt miðsvæðið sem er svo mikilvægt fyrir jafnvægi og styrk. Æfingarnar eru mjög fjölbreyttar og krefjandi og það er ekkert grín að takast á við þær. Ég hafði verið með Helga Jónasi sumarið áður og líkaði það mjög vel, þeir tveir eru svipað þenkjandi þegar kemur að styrktarþjálfun og þess vegna setti ég mig í samband við Gunna. Það er mikilvægt fyrir mig að vera með mann á bakinu þegar ég er að æfa og ég bæti mig meira þannig. Gunni er mikill keppnismaður og það er ekkert í boði að slaka á í kringum hann. Hann veit klárlega hvað hann er að gera. Ég mun vinna með Gunna í framtíðinni og vonandi fer hann að flytja sig í bæinn svo ég sleppi við að keyra Reykjanesbrautina.”
  
Fréttir
- Auglýsing -