Fyrrum liðsfélagarnir Jón Ólafur Jónsson og Justin Shouse buðu upp á þriggja stiga hólmgöngu í Ásgarði í kvöld. Þegar reykinn lagði voru það Garðbæingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar, lokatölur 97-84 og Stjarnan leikur til úrslita í annað sinn á þremur árum. Snæfell var aldrei langt undan í kvöld en meiðsli Jay Threatt voru þeim einfaldlega um megn þessa tvo síðustu leiki liðsins á tímabilinu. Jarrid Frye var stigahæstur hjá Stjörnunni í kvöld með 27 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar en Jón Ólafur Jónsson gerði 30 stig, tók 4 fráköst og gaf 4 stoðsendingar hjá Snæfell.
Hólmarar buðu vallargesti velkomna með tveimur þristum frá þeim Sigurði Þorvaldssyni og Jóni Ólafi, Snæfell komst í 0-8 áður en Garðbæingar skoruðu sín fyrstu stig og þau komu ekki fyrr en eftir þriggja mínútna leik en þar var Jarrid ,,háll sem áll” Frye að verki. Hægt og bítandi nálguðust Stjörnumenn, Jovan kom inn af bekknum og splæsti fljótlega í sjö stig, fersk innkoma hjá kappanum og Hólmarinn Amoroso bruddi endajaxla í garð dómara þar sem hann fékk tvær villur eftir fimm míútna leik. Justin Shouse átti lokaorðin í leikhlutanum fyrir Stjörnuna með þrist þegar hálf mínúta var eftir og Garðbæingar leiddu 20-16 eftir fyrstu tíu mínúturnar.
Jay Threatt kom inn í lið Snæfells undir lok fyrsta leikhluta og snemma í öðrum hluta skoraði hann sín fyrstu stig með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 24-19. Varnarleikurinn var allsráðandi fyrri fimm mínúturnar í öðrum hluta, Pálmi Freyr minnkaði muninn fyrir Snæfell í 28-26 en Stjörnumenn voru jafnan með örlitla forystu. Hafþór Ingi jafnaði 31-31 með þriggja stiga körfu og aftur 38-38 um leið og fyrri hálfleik lauk. Garðbæingar mótmæltu lokakörfu Hafþórs hástöfum og töldu skotklukkuna hafa runnið sitt skeið en dómarar leiksins voru vissir í sinni sök og staðan því 38-38 í hálfleik.
Jarrid og Jovan voru báðir með 12 stig í liði Stjörnunnar í leikhléi en Ryan var með 9 stig og 10 fráköst hjá Snæfell og Sigurður Þorvaldsson var með 8 stig. Snæfell tók heil 19 þriggja stiga skot í fyrri hálfleik og þónokkur þeirra hreinlega illa ígrunduð.
Þristarnir héldu áfram að fljúga hjá Hólmurum í síðari hálfleik, þannig komst Snæfell í 38-41 með bombu frá Sveini Arnari. Gestirnir voru líflegri fyrstu andartökin í þriðja hluta en Jarrid Frye fór þá að kvelja vörn Snæfells með hverju gegnumbrotinu á fætur öðru og voru Snæfellingar einfaldlega allt of linir við þennan magnaða leikmann.
Ryan Amoroso var með kollega sinn Brian Mills í vasanum í kvöld. Amoroso minnkaði muninn í 53-50 fyrir Snæfell en þótti helst til of myndarlegur í tilburðum sínum eftir körfuna og fékk því dæmt á sig tæknivíti fyrir flopp! Sjaldséðir eru hvítir hrafnar.
Jarrid Frye og Justin Shouse áttu svo lokaorðin fyrir Stjörnuna í þriðja leikhluta með tveimur þristum og Garðbæingar leiddu 66-59 fyrir fjórða og síðasta leikhluta þar sem þeir unnu þriðja leikhluta 28-21.
Þriggjastiga einvígi Shouse og Nonna
Fjórði leikhluti minnti fremur á villta vestrið heldur en körfuboltaleik, byssubrandarnir Jón Ólafur Jónsson og Justin Shouse mættust þá í mikilli flugeldasýningu. Stjarnan komst í 11 stiga forystu í upphafi fjórða þegar Jón Ólafur tók af skarið, í hvert sinn sem hann bombaði niður þrist svaraði neyðarkarlinn Justin Shouse í sömu mynt. Þegar reykmekkinn lagði var staðan orðin 89-76 fyrir Stjörnuna og skammt til leiksloka. Úr varð að gestirnir fóru að brjóta og freista þess að fá eitthvað út úr leiknum en Stjörnumenn létu þetta ekki af hendi, settu 59 stig á Snæfell í síðari hálfleik og þrömmuðu inn í úrslit í annað sinn í sögu félagsins.
Jarrid Frye og Justin Shouse fóru mikinn í liði Stjörnunnar í kvöld, það kviknaði í Shouse í síðari hálfleik og þá kom Jovan sterkur inn af bekknum með 21 stig. Dagur Kár Jónsson átti einnig glæsilegar rispur og gerði 10 stig í kvöld líkt og Brian Mills sem hefur þó átt betri daga.
Jón Ólafur og Amoroso drógu Snæfellsvagninn, Jón með 30 stig og Amoroso 20 stig og 14 fráköst. Hafþór Ingi kom líflegur af bekknum en það var einfaldlega of þungt fyrir Snæfell að missa Threatt í meiðsli og rauðir því komnir í sumarfrí.
Byrjunarliðin:
Stjarnan: Justin Shouse, Marvin Valdimarsson, Jarrid Frye, Brian Mills og Fannar Helgason.
Snæfell: Pálmi F. Sigurgeirsson, Jón Ólafur Jónsson, Sveinn Arnar Davíðsson, Sigurður Ágúst Þorvaldsson og Ryan Amoroso.
Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson, Björgvin Rúnarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson. Eftirlitsmaður: Pétur Hrafn Sigurðsson.
Mynd/ [email protected]
Umfjöllun/ [email protected]