spot_img
HomeFréttirEkkert lát á útisigrunum - oddaleikur í Keflavík!

Ekkert lát á útisigrunum – oddaleikur í Keflavík!

Deildar- og bikarmeistarar Keflavíkur tryggðu sér í dag oddaleik gegn Val í undanúrslitum Domino´s deildar kvenna með 59-66 sigri í Vodafonehöllinni. Liðin hafa því bæði unnið tvo útileiki í einvíginu! Hannes Birgir Hjálmarsson var í Vodafonehöllinni í dag og fylgdist grannt með gangi mála.
 
Keflavík byrjar með látum og stela boltanum í þremur fyrstu sóknum Vals og komast í 0-4 eftir eina mínútu. Mistök beggja liða eru áberandi fyrstu mínuturnar og lítið skorað. Ingunn Embla setur þá þrist og kemur Keflavík í 2-7 þegar þrjár minútur eru liðnar og eftir tvær Keflavíkurkörfur í viðbót tekur Ágúst leikhlé, 6 mínútur eftir, staðan 2-11 og Valskonum gengur ekkart að skora. Keflavík spilar fasta og ákveðna vörn sem Valskonur virðast ragar við og greinilegt að dómarar leiksins ætla að leyfa talverða hörku enda komið í undanúrslit! Valsliðið hefur eingöngu skorð eina körfu utan af velli en staðan 4-15 þegar 3:30 eru eftir af fyrsta fjórðungi. Loks skorar Hallveig fyrir Val og Jaleesa líka og minnka muninn í 8-18 og mínúta eftir af leikhlutanum. Liðin skiptast síðan á þristum á síðustu sekúndunum. Keflavík með 10 stiga forskot og staðan eftir fyrsta leikhluta 11-21.
 
Keflavík skorar fyrstu 5 stigin í öðrum leikhluta og nær 14 stiga forskoti á fyrstu mínútunni. Sex stig Vals koma af vítalínunni sem minnkar muninn í 9 stig og átta mínútur eftir. Keflavíkurkonur tapa knettinum í fjórgang og Valskonur ná að minnka muninn í fimm stig 20-25. Vakskonur fá skotrétt þegar 6:30 eru eftir af leikhlutanum en Keflavík spilar enn fasta vörn og dómarar farnir að flauta á brotin. Keflavík tapar knettinum í tvígang og Valur skorar úr tveimur hraðaupphlaupum í röð og ná forystu 26-25 og Sigurður tekur leikhlé fyrir Keflavík sem hefur ekki skorað frá fyrstu mínútu fjórðungsins en þær skoruðu fyrstu fjögur stigin í leikhlutanum! Liðin skora á víxl og jafnt er 29-29 þegar Kristrún setur þrist, staðan 32-30 og 3:17 til hálfleiks. Ingunn Embla setur þrist og kemur Keflavík yfir en Ragna Margrét hittir úr víi og jafnar 33-33 þegar 2:13 eru eftir. Tvö stig og víti frá Pálínu kemur Keflavík í 33-37 en liðin skiptast á að missa boltann, greinilegt að taugar leikmanna eru þandar til hins ítrasta enda ekki við öðru að búast! Kristrún skorar úr tveimur vítum og skotklukkan rennur út hjá Keflavík og eftir tapaða bolta hjá báðum liðum kemt Kristrún inn í hraðaupphlaup og skorar. Dómarar ráðfæra sig við þá félaga hjá SportTv um hvort karfan eigi að vera gild eða ekki og niðurstaðan: karfan ekki gild, staðan þvi 35-37 fyrir Keflavík í hálfleik.
 
Keflavík byrjar seinni hálfleik og nær sjö stiga forskoti 37-44 eftir tvær mínútur. Keflavík heldur áfram að brjóta á Valskonum sem ná ekki að nýta 5 af 6 vítum á þessum kafla og eftir að liðin hafa skipst á að skora er munurinn fjögur stig 42-46 og leikhlutinn hálfnaður. Liðin skiptast á körfum þannig að munurinn er 4-6 stig. Keflavík tekur leikhlé þegar 2:50 eru eftir af þriðja leikhluta og staðan 46-50. Ragna Margrét skorar úr hraðaupphlaupi en Sara Rún setur þrist úr vinstra horninu, mínúta eftir og staðan 48-53 þegar Birna Valgarðs fær sína fjórðu villu og Sigurður skiptir henni út af. Sara Rún setur þrist úr hinu horninu og Ingunn Embla brýtur á Kristrúnu í skoti og fær fjórðu villunua sína. Kristrún setur bæði vítin og Keflavik nær skoti sem geigar á lokasekúnum fjórðungsins, staðan 50-55 Keflavík í vil og andrúmsloftið rafmagnað í Vodafonehöllinni.
 
Mistök á báða bóga þangað til Jessica Jenkins setur þrist og eykur muninn í átta stig 50-58 þegar tvær mínútur eru liðnar af fjórða leikhluta. Valur hefur ekki skorað fyrstu þrjár mínútur lokafjórðungsins! Sara Rún hittir úr tveimur vítum og Keflvíkingar halda uppteknum hætti og brjóta á Jaleesu þegar hún fær boltann.
 
Dæmd er sóknarvilla á Birnu Valgarðs sem er hennar fimmta villa og hefur hún því lokið leik. Staðan 54-60 þegar fimm mínútur eru eftir af leiknum. Ragna skorar og rífur síðan varnarfrákast af Bryndísi Guðmunds. Varnir beggja liða einkenna leikinn þessar mínútur og í stöðunni 56-60 tekur Sigurður Ingimundar leikhlé og 2:54 eftir af leiknum. Jaleesa skorar eftir glæsisendinu Unnar og munurinn aðeins tvö stig. Jaleesa fær sína fjórðu villu þegar tvær mínútur eru eftir. Jessica brýtur á Unni í skoti og fær sina fjórðu villu, Unnur setur annað vítið og munurinn eitt stig 59-60 og 40 sekúndur eftir. Jaleesa klikkar á tveimur skotum undir körfunni umkringd Keflavíkurleikmönnum sem ná seinna frákastinu og Valskonur verða að brjóta og senda Jessicu á vítalínuna sem nýtir bæði vítin, tíu sekúndur eftir og þriggja stiga munur. Ágúst tekur leikhlé en Valskonur missa boltann útaf og senda Jessicu aftur á vítalínuna og staðan eftir tvö víti frá henni 59-64 og 7 sekúndur eftir, Keflavík búið,að tryggja sér oddaleik á heimavelli á þriðjudaginn.
 
Lokatölur 59-66 fyrir Keflavík í háspennuleik þar sem taugar leikmanna beggja liða voru greinilega þandar til hins ýtrasta! Mistök hjá báðum liðum einkenndu þennan leik líkt og fyrri leikina í seríunni en Keflavík hélt haus og náði að knýja fram sigur. Allir leikirnir hafa unnist á útivelli í þessarí hörkuskemmtilegu rimmu tveggja stórskemmtilegra liða, það verður örugglega ekkert gefið eftir í oddaleiknum í Keflavík næstkomandi þriðjudag.
 
 
Fylgstu með okkur á Twitter: 

@Karfan_is

  
Fréttir
- Auglýsing -