Hamar og Valur mætast í kvöld í sínum öðrum úrslitaleik um laust sæti í Domino´s deild karla á næstu leiktíð. Staðan í einvígi liðanna er 1-0 Valsmönnum í vil eftir sigur í fyrsta leik í Vodafonehöllinni. Leikur liðanna hefst kl. 19:15 í Hveragerði í kvöld.
Takist Valsmönnum að landa sigri í leiknum komast þeir upp í úrvalsdeild en sigur hjá Hamri tryggir þeim oddaleik í Vodafonehöllinni.
Þá fara fram tvö lokamót í yngri flokkum í dag. Í Keflavík ræðst það hver verður Íslandsmeistari í 7. flokki kvenna og í Garðabæ verða krýndir Íslandsmeistarar í minnibolta drengja.