spot_img
HomeFréttirValsmenn sterkari í Blómabænum og skunda í úrvalsdeild

Valsmenn sterkari í Blómabænum og skunda í úrvalsdeild

Hamar – Valur í „frystikistunni“ í Hveragerði og duga eða drepast fyrir heimamenn en Valsmenn mættir í vígahug og sigur hjá þeim var aðgöngumiðinn í úrvalsdeildina fyrir þá!
Ágúst Vals-þjálfari stillti upp með þá Ragnar, Rúnar Inga, Chris Woods, Atla Rafn og Birgir í byrjunarliði gestanna. Lárus Jóns stillti upp með Ragga Nat, Hollis, Erni Sig, Þorsteini og Oddi Ólafs.
 
Byrjunin var nokkuð prúð og hittnin ágæt fyrstu mínúturnar en Hamar komst í 10-4 en Valur jafnaði 10-10 skömmu síðar. Síðasta skot Valsara geigaði á lokasekúndu leikhlutans og heimamenn því yfir 18-16.
 
Valur tók frumkvæðið strax í byrjun 2. leikhluta og rúlluðu yfir heimamenn sem voru að hitta illa og voru ragir að sækja á körfuna. Leikhlutann vann Valur 13-26 og leiddu í leikhlé 31-42. Leikmenn Vals virkuðu öruggari í sínum hlutverkum og ógnunin kom frá mörgum leikmönnum þó Woods hafi verið Valsmanna fremstur og sterkur undir körfunni. Hjá Hamar var enginn afgerandi að standa skil á sínum skotum og hittnin heilt yfir ekki góð en baráttan til staðar.
 
3. leikhluti byrjaði með látum heimamanna sem minnkuðu muninn jafnt og þétt. Valsmenn rúlluðu samt á sínu liði áfram og hvíldu Woods drjúgan tíma fyrir lokaleikhlutann. Heimasigur í leikhlutanum 21-11 kom þeim inn í leikinn aftur og 52-54 fyrir lokaátökin þar sem Oddur Ólafs fór fyrir sínu liði ásamt Lárusi þjálfara.
 
Síðasti leikhlutinn var rauðlitaður frá byrjun og Hamar alltaf að saxa 4-9 stiga forskot Valsara sem opnuðu á stundum vörn heimamanna upp á gátt meðan skot og lay-up duttu ekki hinumegin. Þegar allt virtist vera í rólegheitum hjá Valsmönnum fékk Woods tæknivillu og sína þriðju í leiknum fyrir orðaskak við dómarann, staðan 54-58 og 7 mínútur eftir. Hér var sem örlög heimanna væru ljós því Hollis klúðraði báðum vítunum og Hamar sókninni í kjölfarið en fengu í andlitið 6 Valsstig á stuttum tíma og staðan fljótlega eftir það orðin 57-66 og Valur í góðum málum. Hamarsmenn sýndu þó allar klærnar á lokakaflanum en of lítið og of seint þar sem þrír þristar á síðustu mínútunni dugðu ekki gegn góðri vítanýtingu Vals í hinum endanum og sigur Vals sanngjarn 74-80.
 
Það er því ljóst að Hamar spilar áfram í 1.deild en Valsara komnir í úrvalsdeild í haust og vel að því komnir og fögnuðu vel að leik loknum ásamt þeirra stuðningsmannaliði en rúmlega 400 manns mættu á lokaleik 1.deildarinnar þennan veturinn og voru liðum sínum til sóma.
 
Gangur leiksins: 5:4, 10:6, 12:10, 16:14, 22:25, 29:31, 31:33, 31:43, 39:43, 45:45, 45:51, 52:54, 54:58, 57:66, 59:68, 74:80.
 
Hamar: Oddur Ólafsson 21/6 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 13/5 fráköst, Örn Sigurðarson 11/5 fráköst, Jerry Lewis Hollis 10/17 fráköst/4 varin skot, Ragnar Á. Nathanaelsson 8/7 fráköst/5 varin skot, Bjartmar Halldórsson 6, Halldór Gunnar Jónsson 3, Lárus Jónsson 2.
Fráköst: 29 í vörn, 15 í sókn.
 
Valur: Chris Woods 19/11 fráköst, Atli Rafn Hreinsson 18, Birgir Björn Pétursson 14/9 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 9/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Gylfason 8, Kristinn Ólafsson 5, Benedikt Blöndal 5, Þorgrímur Guðni Björnsson 2.
Fráköst: 26 í vörn, 8 í sókn.
 
Umfjöllun/ Anton Tómasson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -