Magnaður fjórði leikhluti hjá deildarmeisturum Grindavíkur gerði út um fyrsta leik liðsins gegn Stjörnunni í úrslitum Domino´s deildar karla í kvöld. Lokatölur 108-84 í Röstinni þar sem gulir og glaðir unnu fjórða leikhluta 34-12! Jóhann Árni Ólafsson og Aaron Broussard fóru á kostum í liði Grindavíkur sem lék án Ryan Pettinella sem í kvöld glímdi við flensu. Jarrid Frye var stigahæstur hjá Stjörnunni með 28 stig og 12 fráköst. Í 30 mínútur var boðið upp á magnaðan slag en einstefnu síðustu tíu mínúturnar. Stjarnan fær tækifæri til að rétta úr kútnum á föstudag þegar liðin mætast aftur í öðrum leik seríunnar og þá í Ásgarði í Garðabæ.
Justin Shouse gangsetti úrslitin með gegnumbroti fyrir Stjörnuna og gestirnir úr Garðabæ fóru allt annað en hljóðlega af stað því þeir skoruðu fyrstu sjö stig leiksins. Grindvíkingum var ekki til setunnar boðið, Jóhann Árni opnaði fyrir heimamenn með þrist og við tók 17-2 kafli og komust heimamenn í 17-9 þegar Garðbæingar tóku leikhlé! Í þessum kafla var m.a. glæsileg flétta hjá þeim Zeglinski og Sigurði Gunnari í Stjörnuteignum sem lauk með stórustrákatroðslu frá Ísafjarðartröllinu.
Úrslitaserían var opnuð af krafti af hálfu beggja liða, stuðningsmenn beggja voru vel með á nótunum en Grindvíkingar leiddu 26-18 eftir fyrsta leikhluta þar sem Frye átti lokaorðið fyrir Stjörnuna með gegnumbroti.
Grindavíkurvörnin sem var bæði hjálpfús og grimm í fyrsta leikhluta gaf eftir í öðrum leikhluta, Garðbæingar fundu glufurnar og voru allan leikhlutann að daðra við það að jafna. Mills minnkaði í 36-33 með þrist, Frye var líka að finna sig fyrir utan og minnkaði í 46-45 þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Þegar hér var komið við sögu ákváðu Grindvíkingar að taka tvö ótrúlega illa ígrunduð þriggja stiga skot í röð sem vildu ekki niður og 27 sekúndur eftir af leiknum þegar Stjarnan náði frákastinu. Garðbæingar þökkuðu auðvitað fyrir þetta hugsunarleysi heimamanna, settu upp í langa og myndarlega sókn sem lauk með þrist frá Jovan, sannarlega löðrungur á vanga hjá gulum. Stjarnan leiddi því 46-48 í hálfleik og komust yfir í fyrsta sinn síðan þeir komust í 0-7.
Aaron Broussard var kominn með 15 stig og 4 fráköst í hálfleik hjá Grindavík en Frye var með 14 stig og 7 fráköst í Stjörnuliðinu en rimma þessara tveggja leikmanna veit á gott því fyrstu tuttugu mínútur leiksins börðust þeir af krafti og skiptust á því að leika hvorn annan grátt.
Fyrstu fimm mínútur síðari hálfleiks einkenndust af meiri hörku en áður hafði verið í leiknum, fyrir vikið var nokkuð um mistök á báða bóga og lítið skorað. Marvin Valdimarsson fékk fjórar villur í liði Stjörnunnar og slíkt hið sama mátti Sigurður Þorsteinsson sætta sig við í Grindavíkurliðinu.
Jafnt var á öllum tölum í þriðja leikhluta og leiddu Grindvíkingar 74-72 að honum loknum. Ólafur Ólafsson náði sóknarfrákasti fyrir gula og skoraði um leið og þriðja leikhluta lauk en karfan var ekki dæmd gild þar sem tíminn var útrunninn.
Stjarnan átti aldrei möguleika í fjórða leikhluta, ef boltinn dansaði ekki upp úr hringnum hjá þeim þá var Grindavík að láta rigna á hinum enda vallarins. Loftið gusaðist úr Garðbæingum með hverri mínútunni, Jóhann og Broussard með refsivöndinn á lofti við hvert fótmál og svona mjatlaði Grindavíkurvélin í gæðagírnum í fjórða leikhluta.
Grindavík opnaði fjórða leikhluta 11-0 og fyrr en varði stóð 108-84 á töflunni. Mögnuð frammistaða og þó bekkurinn hafi ekki skorað neitt að ráði hjá gulum leystu menn sínar stöður vel og þeir Daníel Guðni og Davíð Ingi komust vel frá sínu og sást umtalsvert meira til þeirra í kvöld heldur en aðra leiki þessa úrslitakeppnina.
Aaron Broussard gerði 39 stig og tók 12 fráköst í liði Grindavíkur. Jóhann Árni Ólafsson gerði 26 stig og tók 3 fráköst og fagnaði að spartverskum hætti þegar hann bauð upp á tilþrif leiksins með því að verja stórkostlega skot frá hinum magnaða Jarrid Frye. Téður Frye var með 28 stig og 12 fráköst hjá Stjörnunni í kvöld og þeir Brian Mills og Justin Shouse bættu bæaðir við 19 stigum.
Byrjunarliðin:
Grindavík: Samuel Zeglinski, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussard og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Stjarnan: Justin Shouse, Marvin Valdimarsson, Jarrid Frye, Brian Mills og Fannar Freyr Helgason.
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.
Mynd/ [email protected]
Umfjöllun/ [email protected]