spot_img
HomeFréttirFlensa eða matareitrun

Flensa eða matareitrun

Merkilegri kenningu hefur verið kastað fram í sambandi við Michael Jordan og leik fimm gegn Utah Jazz 1997 þar sem Jordan spilaði veikur eins og frægt er orðið. Hefur leikurinn verið kallaður „flensuleikurinn“ vestanhafs en samkvæmt Tim Grover, einkaþjálfara Jordans, var meistarinn ekki með flensu heldur matareitrun.
 
Tim Grover sem hefur gert sér gott nafn sem einkaþjálfari NBA leikmanna, og þjálfað leikmenn á borð við Kobe Bryant og Dwayane Wade sem og Jordan, gaf út bókina Relentless: From Good to Grate to Unsoppable fyrir skemmstu og sat fyrir svörum á TrueHoop TV. Hann blæs á þær sögusagnir að Jordan hafi verið með timburmenni í leiknum eins og Bill Simmons og Jalen Rose hafa þrætt um.
 
„Ég er 100% viss um að honum hafi verið byrlað eitur,“ segir Grover og talar um að þeir hafi pantað sér pizzu sem var eitthvað „loðin“.
 
„Við sátum upp á hóteli í Park City og Jordan var orðinn svangur. Herbergisþjónustan lokaði kl. níu og það var í raun enginn annar staður til að fara og fá sér að borða. Við ákváðum þá að panta okkur pizzu.“
 
„Það voru ekki mörg hótel í Park City á þessum tíma þannig að allir vissu eiginlega að við værum á þessu hóteli enda vorum við búnir að vera þarna í einhvern tíma. Við pöntuðum pizzuna og fimm náungar komu með hana. Ég tók við henni og sagði strax að mér fyndist þetta eitthvað dularfullt,“ sagði Grover en Jordan var sá eini í herberginu sem fékk sér að borða.
 
„Kl. tvö um nóttina var hringt í mig og ég beðinn að koma inn í herbergið til Jordans. Hann lá í rúminu sínu í fósturstellingunni. Það var því hringt í lækni liðsins og um leið og hann kom sagði ég við hann að þetta væri matareitrun ekki flensa.“
 
Hvort um flensu eða matareitrun er að ræða vita allir restina en Chicago Bulls urðu meistarar eftir að hafa lagt Utah Jazz 4-2 í úrslitunum 1997.

 

 
 
Fréttir
- Auglýsing -