Keflavíkurstúlkur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í 9. flokki stúlkna í dag í Njarðvíkinni með 50:40 sigri á liði Hauka. Leikurinn var kaflaskiptur þar sem að Haukar leiddu mest allan fyrri hálfleik en í þeim seinni gaf Keflavík í og tryggðu sér titlinn. Thelma Dís Ágústsdóttir var svo valin leikmaður leiksins með 17 stig og 11 fráköst en stúlkan snéri leiknum Keflavík í vil í þriðja leikhluta með frábærum leik.
Haukar náðu uppkastinu og hófu leikinn en náðu ekki að skora í fyrstu sókn leiksins. En það var ekki fyrr en eftir 2 mínútna leik að Sylvía Rún Hálfdánardóttir setti fyrstu stig leiksins þegar hún fór á vítalínuna og “svissaði” tveimur vítum. Fyrstu stig Keflavíkur komu svo frá Indíönu Ástþórsdóttir eftir tæplega 4 mínútna leik en óhætt er að segja að stigaskorun í leiknum fór hægt af stað. Eftir 5 mínútna leik var staðan 5:2 Haukum í vil og þá hafði Jón Guðmundsson þjálfari Keflavíkur fengið nóg, tók leikhlé og stúlkurnar hans fengu hárþurrku meðferðina. Keflavík skipti yfir í svæðisvörn og voru fljótlega búnar að jafna leikinn. Staðan var 9:7 Haukum í vil eftir fyrsta fjórðung í allt stefndi í hörku leik.
Haukar hófu annan leikhluta með látum og skoruðu fyrstu 6 stig leikhlutans og staðan orðin allt í einu 13:7. En Keflavíkurstúlkur voru hinsvegar fljótar að minnka muninn niður í 2 stig og ekkert varð úr að Haukar kæmust í stóra forystu eins og í stefndi. Haukar héldu hinsvegar áfram og pressuðu stíft á Keflavíkurstúlkur sem að lokum skilaði þeim aftur í vænlega forystu 19:11 þegar um 3 mínútur voru til hálfleiks. Aftur hafði þá Jón Guðmundsson séð nóg og tók annað leikhlé og fór yfir hlutina með sínu liði. Þetta leikhlé skilaði tilæluðum árangri því Keflavík komu sterkar inn og voru fljótar að koma muninum niður í 2 stig og staðan í hálfleik 22:20 Haukum í vil. Stigahæsti leikmaður Hauka á þessum tímapunkti var Inga Rún Svansdóttir með 8 stig og 6 fráköst. Hjá Keflavík voru það þær Indíana Ástþórsdóttir og Elva Falsdóttir með 5 stig hvor.
Seinni hállfeikur hófst líkt og sá fyrri með mikilli baráttu en þó voru leikmenn búnir að finna sig og allar aðgerðir leikmanna sýndu það. Rifist var um hvern einasta bolta sem laus var og Keflavíkurstúlkur komust loksins yfir í leiknum þegar Thelma Dís Ágústsdóttir setti niður fallegt sniðskot. Fljótlega breytist stemmningin á vellinum og nú voru það Keflavíkurstúlkur sem höfðu frumkvæðið og í næstu sókn á eftir var brotið á Thelmu Dís í skoti sem hún setti niður og fékk hún víti að auki sem smellti auðveldlega niður og staðan orðin 24:29 Keflavík í vil. Leikurinn var svo í járnum þegar Haukar jafna í stöðunni 29:29 og þá setur Katla Garðarsdóttir huggulegan þrist og kemur Keflavík í 29:32 þegar 3 mínútur eru eftir af þriðja leikhluta. Sylvía Rún Hálfdánardóttir hélt Haukastúlkum við efnið en það var Thelma Dís hjá Keflavík sem hreinlega fór hamförum í þriðjaleikhluta og var komin með 16 stig og Keflavík leiddi leikinn fyrir síðasta leikhlutan 29:37.
Keflavík gáfu lítið eftir í byrjun fjórða leikhluta og Kristrós Jóhannsdóttir kom muninum í 10 stig, 32:42 með laglegum þrist. Haukastúlkur neituðu hinsvegar að gefast upp en lítið var skorað næstu mínútur þó svo að Inga Rún Svansdóttir setti niður tvö víti og kom muninum niður í 8 stig. En þá kom 5:0 kafli hjá Keflavík og skyndilega munurinn orðin 13 stig, 36:49 og aðeins tæpar 2 mínútur til loka leiks. Þennan mun náðu Haukastúlkur ekki að brúa og voru það Keflavíkurstúlkur sem fögnuðu innilegum Íslandsmeistaratitli í 9. flokki kvenna þetta árið. Thelma Dís Ágústsdóttir var svo valin maður leiksins með 17 stig og 11 fráköst.