Forsala á oddaleik Grindavíkur og Stjörnunnar í Domino´s deild karla er hafin og fer hún fram í Grindavík. Karfan.is ræddi við Óla Björn Björgvinsson formann KKD Grindavíkur sem sagði það deginum ljósara að staðið yrði í stúkunni á morgun.
„Miðarnir rjúka út, þetta eru um 1000 manns sem rúmast í húsinu og það liggur ljóst fyrir að það verður staðið í stúkunni,“ sagði Óli Björn. Hér í eina tíð þegar húsið var með gólfdúk sem leikvöll var pöllum komið fyrir aftan við varamannbekki en þess nýtur ekki við í dag.
„Þegar parketið kom var völlurinn færður fjær stúkunni og því ekki hægt að vera með áhorfendabekki aftan við varamannabekkina,“ sagði Óli Björn. Á morgun verða hamborgararnir á sínum stað, grillaðir af körfuknattleiksdeild Grindavíkur í aðstöðu hjá Salthúsinu sem er við hlið íþróttahússins og kynt undir grillunu laust eftir kl. 16:00.
Fyrir liggur að stækka íþróttahúsið í Grindavík en það eru plön sem formanninum hugnast ekki, hann bendir á aðra möguleika:
„Bæjaryfirvöld vilja stækka og lengja húsið en við viljum byggja nýtt. Ef húsið er stækkað og bætt við einu æfingabili þá erum við engu að síður mettuð og engir aukatímar í boði þrátt fyrir stækkun/lengingu. Það er ekki nema um 70 milljón krónum dýrara að byggja nýtt hús sem veldur því ekki að við missum húsnæði í fleiri mánuði vegna stækkunarframkvæmda,“ sagði Óli en við slepptum ekki af honum takinu fyrr en hann hafði gefið okkur smá innsýn í stemmninguna í Grindavík þessa dagana.
„Það er hrikaleg stemmning og stuð, bæjarfélagið iðar og ekki talað um annað en oddaleikinn. Fólk er mjög spennt og við leggjum mikið í þetta og aldrei að vita nema hent verði í eitthvað show.“