Fjölnir lagði Keflavík í Dalhúsum í kvöld í Subway deild kvenna, 99-83.
Eftir leikinn er Fjölnir í 2. sæti deildarinnar með 24 stig á meðan að Keflavík er í 5. sætinu með 14 stig.
Heimakonur í Fjölni fóru betur af stað í leik kvöldsins. Leiddu með 5 stigum eftir fyrsta leikhluta, 21-16. Undir lok fyrri hálfleiksins bæta þær svo enn í og eru komnar 12 stigum á undan þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 43-31.
Í upphafi seinni hálfleiksins tekst Keflavík að vinna niður forystu heimakvenna og komast aftur inn í leikinn. Munurinn aðeins 3 stig eftir þrjá leikhluta, 67-64. Í lokaleikhlutanum náðu heimakonur svo að sigla aftur framúr og vinna leikinn að lokum með 16 stigum, 99-83.
Atkvæðamest í liði Fjölnis í kvöld var Aliyah Mazyck með 25 stig, 9 fráköst, 8 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Henni næst var Dagný Lísa Davíðsdóttir með 21 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar.
Fyrir gestina úr Keflavík var það Daniela Wallen sem dró vagninn með 31 stigi, 10 fráköstum, 3 stoðsendingum og 4 stolnum boltum. Þá bætti Anna Ingunn Svansdóttir við 26 stigum.
Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 23. febrúar. Keflavík heimsækir granna sína Njarðvík í Ljónagryfjuna á meðan að Fjölnir mætir Íslandsmeisturum Vals í Origo Höllinni.