spot_img
HomeFréttirKR Íslandsmeistari í 9. flokki drengja

KR Íslandsmeistari í 9. flokki drengja

KR er Íslandsmeistari í 9. flokki drengja eftir 58-52 sigur á Breiðablik í úrslitaviðureign liðanna í DHL Höllinni. Blikar saumuðu vel að röndóttum heimamönnum sem þó reyndust sterkari á loksprettinum og fögnuðu loks sigri. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var valinn maður leiksins með 23 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Þá var Brynjar Karl Ævarsson atkvæðamestur í liði Blika með 18 stig, 14 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta.
 
Arnór Hermannsson gerði fyrsta þrist leiksins og kom KR í 5-2 en Óli Eðvald Bjarnason svaraði fyrir Blika í sömu mynt og staðan 5-5. Oddur Örn var að gera KR erfitt fyrir á upphafsmínútunum og minnkaði muninn fyrir Blika í 10-9 en hann gerði sex af fyrstu níu stigum Blika í leiknum. KR-ingar skiptu við þetta í annan gír og gerðu næstu tíu stigin í röð og leiddu 20-9 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var sprækur hjá röndóttum með 7 stig eftir fyrsta leikhluta.
 
Blikar voru öllu ferskari í öðrum leikhluta og í stöðunni 28-18 KR í vil fóru gestirnir að láta til sín taka. Meiri grimmd kom í varnarleik grænna úr Kópavogi sem lokuðu öðrum leikhluta með 8-0 áhlaupi og minnkuðu muninn í 28-26 fyrir hálfleik. Oddur Örn Ólafsson var með 14 stig og 3 fráköst í liði Blika í leikhléi en hjá KR var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 10 stig.
 
Mönnum gekk illa að finna körfuna í upphafi síðari hálfleiks. Blikar urðu þó fyrri til og jöfnuðu 28-28 og um leið snögghitnaði undir Brynjari Karli Ævarssyni. Brynjar hafði til þessa aðeins skorað úr vítum í fyrri hálfleik en brennt af fimm teigskotum og þremur þristum. Það átti heldur betur eftir að breytast.
 
Brynjar Karl setti þrist og kom Breiðablik í 30-31 og átti eftir að skora níu stig í röð fyrir græna! Á sama tíma var Oddur Örn Ólafsson í strangri gæslu hjá KR vörninni. Heimamenn í KR máttu vel naga sig í handarbökin í þriðja hluta því þeir brenndu af hverju vítinu á fætur öðru og það er dýrt í svona jöfnum leik. Blikar unnu þriðja leikhluta 20-14 og leiddu því 43-46 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Eins og við var að búast datt leikurinn í nokkurn lás í fjórða leikhluta, ofuráhersla liðanna á vörn hugnaðist KR betur sem tóku 12-5 sprett fyrstu sex mínútur leikhlutans og leiddu 55-51 þegar 2.17 mínútur lifðu leiks.
 
Hver sóknin af fætur annarri dansaði af hringnum hjá Blikum og KR-ingar gerðu vel á lokasprettinum með góðri vinnu í fráköstunum og lönduðu að lokum 58-52 sigri og eru Íslandsmeistarar í 9. flokki karla árið 2013.
 
 
Umfjöllun og mynd/ [email protected]
 
Og það var fagnað:
 
  
Fréttir
- Auglýsing -