spot_img
HomeFréttirGrindavík Íslandsmeistari 2013

Grindavík Íslandsmeistari 2013

Grindavík og Stjarnan eigast nú við í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Domino´s deild karla. Staðan í einvíginu er 2-2 og það lið sem vinnur leik kvöldsins verður meistari. Grindavík hefur tvisvar sinnum áður orðið meistari en Stjarnan er á höttunum eftir sínum fyrsta titli í sögu félagsins. Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign liðanna. 
 
Þetta er í fyrsta sinn sem Grindavík verður Íslandsmeistari tvö ár í röð og alls í þriðja sinn í sögu félagsins.
 
Aaron Broussard var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar 2013. Kappinn gerði 25 stig í kvöld fyrir Grindavík, tók 9 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 4 boltum. Hjá Stjörnunni var Marvin Valdimarsson stigahæstur með 17 stig, 9 fráköst og 2 stoðsendingar.
_______________________________________________________________________________________________________________________
 
4. leikhluti
 
– Leik lokið…Grindvíkingar eru Íslandsmeistarar eftir rafmagnaðan oddaleik. Þessi var svakalegur, Grindavík meistari annað árið í röð…Stjarnan gafst aldrei upp, stóðu sig í reynd með miklum sóma eftir að hafa misst Jarrid Frye meiddan af velli í fyrri hálfleik.
 
– 3,35 sek og Broussard setur tvö víti og 79-74…lokatölur 79-74 og Grindavík er Íslandsmeistari 2013!!
 
– 4,29 sek og Justin tók erfitt þriggja stiga skot en vildi fá villu, fékk ekki…
 
– Það eru 9,65 sek eftir á leikklukkunni og Stjarnan mun taka innkast á varnarhelmingi Grindavíkur…
 
– 9,65 sek eftir og brotið á Broussard sem brenndi af skottilraun sinni. Hann fær því tvö skot fyrir Grindavík og getur aukið muninn í fjögur stig…brennir af fyrra….77-74 setur seinna vítið og Stjarnan tekur leikhlé.
 
– 32 sekúndur og dæmd villa Ólaf Ólafsson fyrir hald…ekki par sáttur Ólafur og Justin fer á línuna og á tvö víti…76-74 Justin setur bæði vítin og Grindavík tekur leikhlé þegar 32 sekúndur eru eftir af leiknum.
 
– Grindvíkingar klaufalegir og fara illa með boltann, Stjörnumenn komast inn í sendingu og brotið er á Sæmundi Valdimarssyni og um sóknarvillu að ræða. Stjarnan á innkast en ekki víti.
 
– 48 sekúndur efitr og Justin tekur tvö víti fyrir Stjörnuna… 76-72 Justin setur bæði vítin og bláir pressa.
 
– 76-70 Broussard aftur á ferðinni og nú með tvö rándýr stig í Stjörnuteignum þegar 51 sekúnda lifir leik…Garðbæingar taka leikhlé.
 
– 74-70 Broussard með tvö víti…þristur í næstu Stjörnusókn vill ekki niður og 1.14mín eftir þegar Grindavík á boltann.
 
– 72-70 Jóhann Árni með erfitt stökkskot fyrir Grindavík sem ratar rétta leið. 
 
– 70-70 Sæmundur Valdimarsson jafnar leikinn af vítalínunni fyrir Stjörnuna…2.15mín til leiksloka!
 
– 2.30mín eftir og staðan enn 70-68 fyrir heimamenn í Grindavík. 
 
– 3.44mín til leiksloka og Sammy Zeglinski búinn að fá sína fimmtu villu. Inn í hans stað kemur Ólafur Ólafsson.
 
– 70-68 SIgurður Þorsteinsson með sóknarfrákast fyrir Grindvíkinga, skorar og fær villu að auki, kappinn setur svo niður vítið af miklu öryggi. Sigurður kominn með 12 stig og 9 fráköst í leiknum.
 
– 67-68 fyrir Stjörnuna og 4.32 mínútur til leiksloka.
 
– Grindvíkingar taka leikhlé enda Stjarnan búin að opna fjórða leikhluta með 13-3 spretti. 6.17mín eftir af leiknum.
 
– 65-63 og Stjarnan að setja þriðja þristinn sinn í leikhlutanum og nú var Marvin Valdimarsson að verki…ja hérna hér og Justin jafnar 65-65, Shouse með varnarfrákast, brunar upp og skorar af miklu harðfylgi. Desibilkvarðinn er margsprengdur hér í kvöld.
 
– 62-60 Marvin Valdimarsson með teigkörfu fyrir bláa en Sammy svarar með Grindavíkurþrist langt neðan úr bæ og 65-60. Þetta er þvílík veisla!
 
– 62-58 og Brian Mills með annan þrist fyrir Stjörnuna sem opnar leikhlutann 6-0.
 
– 62-55 Brian Mills opnar fjórða leikhluta með þrist fyrir Stjörnuna.
 
– Síðasti leikhluti tímabilsins í karlaflokki er hafinn!
 
…hér á milli leikhluta var ungur Stjörnumaður að vinna sér inn ársbirgðir af Domino´s flatbökum er hann skoraði úr Domino´s skotinu.
 
(Justin Shouse til varnar gegn Grindavík í 3. leikhluta)
 
3. leikhluti 
 
– Grindavík vann þriðja leikhluta 21-19.
 
– Stjörnumenn áttu síðustu sókn þriðja leikhluta en þeim tókst ekki að skora þar sem þriggja stiga skot frá Brian Mills vildi ekki niður og staðan 62-52 fyrir Grindavík fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
– 62-49… Sammy Zeglinski með risavaxinn þrist fyrir gula þegar 1.19mín voru eftir af þrijða leikhluta og þessi hlýtur að hafa sviðið alla leið út í Garðabæ.
 
– 1.37mín eftir af fjórða leikhluta og Þorleifur Ólafsson fer af velli í Grindavíkurliðinu eftir að hafa fengið sína fjórðu villu.
 
– 59-47 og 1.47mín eftir af þriðja leikhluta.
 
– 55-43 fyrir Grindavík og 3 mínútur eftir af þriðja leikhluta. Síðustu tvær Stjörnusóknir hafa endað í þriggja stiga skotum hjá miðherjanum Fannari Helgasyni og nú er kominn tími til að Stjörnumenn prufi eitthvað annað…verða að gera meiri ógn við körfu heimamanna.
 
– 54-41 og 5.31mín eftir af þriðja leikhluta…Stjarnan tekur leikhlé og Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar var hér að fá dæmda á sig tæknivillu svo Grindvíkingar mæta út úr leikhléinu til að taka tvö víti.
 
– 52-41 Aaron Broussard með stóran þrist fyrir Grindvíkinga og nú gengur allt í mót gestunum úr Garðabæ því Brian Mills var að fá dæmda á sig sóknarvillu.
 
– 49-41 og það er að færast umtalsvert aukin harka í leikinn.
 
– 45-38 Fannar Helgason með Stjörnuþrist. 45-41 og Marvin bætir við öðrum þrist og munurinn kominn niður í fjögur stig. 7.34mín eftir af þriðja leikhluta.
 
– 41-35 Marvin Valdimarsson opnar síðari hálfleik fyrir gestina með teigkörfu. 
 
– Þriðji leikhluti er hafinn… og eins og áður hefur komið fram í þessari lýsingu þá verður Jarrid Frye ekki meira með Stjörnunni í leiknum.
 
Viðtal við Þorleif Ólafsson fyrirliða Grindavíkur í hálfleik:
 
Viðtal við Kjartan Atla leikmann Stjörnunnar í hálfleik:
 
(Fannar fyrirliði Stjörnunnar í baráttunni í fyrri hálfleik, hann er kominn með 5 stig og 5 fráköst í kvöld)
 
– ATH: Okkur var að berast það til eyrna að Jarrid Frye verði ekki meira með Stjörnunni í leiknum! Hann mun hafa meiðst nokkuð illa og mun einnig vera farinn á sjúkrahús til aðhlynningar.
 
– Skotnýting liðanna í hálfleik:
Grindavík: Tveggja 47,4% – þriggja 37,5% og víti 71,4%
Stjarnan: Tveggja 34,6% – þriggja 27,3% og víti 85,7%
 
– Sammy Zeglinski er stigahæstur í liði heimamanna í hálfleik með 14 stig og 3 fráköst og þeir Sigurður Þorsteinsson og Aaron Broussard eru báðir með 7 stig. Jarrid Frye er stigahæstur hjá Stjörnunni í hálfleik með 9 stig og Brian Mills er með 7 og 8 fráköst. 
 
– Jón Guðmundsson er kominn í hóp þeirra sem haltra í húsinu en hann lenti í smá skakkaföllum er hann og ljósmyndari þvældust saman og Jón kennir sér smá eymsla í fæti og hefur verið að dæma haltrandi undir lok fyrri hálfleiks.
 
2. leikhluti
 
– Hálfleikur…staðan er 41-33 fyrir Grindavík.
 
– 39-33 Marvin með laglega hreyfingu á blokkinni og minnkar muninn í 6 stig. Bláir Garðbæingar eru að bíta vel frá sér núna…41 sek eftir af fyrsta.
 
– 39-31 og Garðbæingar láta ekkert deigan síga þó Frye njóti ekki við. 1.43mín eftir af fyrri hálfleik.
 
– Sverrir Þór er í svarta dressinu í dag… sjá http://www.karfan.is/read/2013/04/26/blai-bolurinn-ut-svarta-skyrtan-inn 
 
– 37-26 Jovan Zdravevski gerir nokkuð fáséð, tekur frákast og brunar upp allan völlinn líkt og leikstjórnandi væri og skorar á hinum endanum, laglegur sprettur hjá Jovan.
 
– 37-24 og 4.47mín til hálfleiks. Frye er enn í aðhlynningu og nú er það Sammy Zeglinski í liði Grindavíkur sem kennir sér eymsla í fæti og haltrar við…Sammy er þó enn innan vallar.
 
– 35-21…grátt ofan á svart hjá Stjörnunni því Grindavík setur þrist strax í sókninni eftir að Frye er leiddur af velli.
 
– 32-21 Jarrid Frye setur Stjörnuþrist en lendir illa og er þjáður. Þetta lítur ekki vel út í augnablikinu…Frye var leiddur af velli og steig ekki í fótinn. Garðbæingar fjarri því hressir því þeim fannst varnarmaður Grindavíkur stíga undir Frye eftir skotið.
 
– 32-18…Ólafur Ólafsson með þrist og Grindvíkingar eru svo sannarlega í háa drifinu þennan fyrri hálfleikinn.
 
– 29-18 og Jarrid Frye gerir fyrstu Stjörnustigin í öðrum leikhluta eftir rúmlega tveggja mínútna leik.
 
– 28-16 Davíð Ingi Bustion skorar fyrir Grindvíkinga og fær villu að auki, Stjörnumenn taka leikhlé eftir 8-0 byrjun hjá gulum í leikhlutanum. Davíð setur vítið og 29-16 fyrir Grindavík og 9-0 byrjun í öðrum leikhluta hjá þeim.
 
– 26-16 og Grindvíkingar mæta með annan þrist, það rignir gersamlega hér hjá heimamönnum.
 
…Annar leikhluti er hafinn…23-16 og Þorleifur Ólafsson opnar hann með þrist fyrir Grindvíkinga.
 
(Jóhann Árni Ólafsson til varnar gegn Jarrid Frye í fyrsta leikhluta í Röstinni í kvöld)
 
1. leikhluti
 
– Fyrsta leikluta er lokið og staðan er 20-16 fyrir Grindavík. Stjarnan komst í 0-9 en Grindavík lokaði leikhlutanum með 20-6 áhlaupi.
 
– 19-16 Sigurður Þorsteinsson skorar og fær villu að auki. Ísafjarðartröllið skellir svo niður vítinu þegar 43 sek eru eftir af fyrsta leikhluta.
 
– 14-14 Jovan svellkaldur af bekknum hjá Stjörnunni og setur þrist. 16-14 Davíð Ingi Bustion svarar strax fyrir Grindavík og Stjörnumenn jafna engu að síður strax aftur 16-16. Hér gerast nú hlutirnir fremur hratt…
 
– 12-11 Broussard skorar sín fyrstu stig fyrir Grindavík sem eru á 12-2 „runni“ um þessar mundir! 3.00mín eftir af fyrsta.
 
– 10-11 Zeglinski með þrist og þakið ætlar af kofanum.
 
– 7-11 Sigurður Þorsteinsson með sóknarfrákast sem hann blakar ofan í fyrir Grindvíkinga og heimamenn vaknaðir. 
 
– Jarrid Frye þarf að fara sér varlega í Stjörnuliðinu en hann er kominn með tvær villur hér í fyrsta leikhluta. 
 
– 5-11 Sammy Zeglinski með fyrsta þrist heimamanna í leiknum og lifnar nú aðeins yfir gulum.
 
– 2-9 og Þorleifur skoraði úr báðum vítunum fyrir Grindavík, þeirra fyrstu stig eftir fjórar mínútur. 
 
– 0-9 Brian Mills skorar fyrir Stjörnuna og brotið á Þorleifi Ólafssyni í næstu Grindavíkursókn og gulir heimamenn biðja um leikhlé. Þorleifur fer á línuna eftir leikhléið og getur gert fyrstu stig Grindavíkur í leiknum eftir næstum því fjögurra mínútna leik! Grindavík búið að brenna af fjórum fyrstu teigskotunum sínum og tveimur þristum, köld byrjun heimamanna.
 
– 0-7 Justin Shouse með þrist og óskabyrjun gestanna í fullum gangi. 
 
– 0-4 Marvin Valdimarsson kemur gestunum í 4-0 og rétt rúmar tvær mínútur liðnar. Fyrstu skot heimamanna dansa af hringnum og það ætlar að taka gula greinilega einhvern tíma að finna fyrstu stigin sín í kvöld.
 
– 0-2 Jarrid Frye opnar leikinn fyrir gestina úr Garðabæ með stökkskoti.
 
– Allt til reiðu og það eru Stjörnumenn sem vinna uppkastið og eiga því fyrstu sókn leiksins.
 
…Nú eru nákvæmlega tvær mínútur í leik.
 
(Grindvíkingar lásu bara blöðin á meðan Stjörnumenn voru kynntir til leiks)
 
– Myndbandskynning ala Egill Birgisson í gangi…það er verið að kynda vel undir mannskapnum!
 
– Við ræddum einnig við Sverri Þór þjálfara Grindavíkur fyrir leik og hann hafði þetta að segja:
 
– Nú eru nákvæmlega 13 mínútur í leik. Við skulum halda okkur við að tippa á að byrjunarliðin haldist óbreytt og þá myndu þau líta svona út:
Grindavík: Sammy Zeglinski, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussard og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Stjarnan: Justin Shouse, Marvin Valdimarsson, Jarrid Frye, Brian Mills og Fannar Freyr Helgason.
 
– Skúli Sigurðsson náði í skottið á Teiti Örlygssyni skömmu fyrir leik og hafði Teitur þetta að segja:
 
– Hér eru tveir menn í húsinu sem fyrr í dag urðu Íslandsmeistarar þegar 11. flokkur Grindavíkur varð Íslandsmeistari eftir frækinn sigur á KR. Þessir menn eru Jóhann Árni Ólafsson leikmaður meistaraflokks Grindavíkur sem þjálfar 11. flokk félagsins og Jón Axel Guðmundsson sem leiddi Grindavík til sigurs í 11. flokki og var valinn besti maður leiksins. Jón Axel er í leikmannahópi Grindavíkurliðsins í dag sem eftir rúmar 20 mínútur hefur oddaleik sinn hér í Röstinni gegn Stjörnunni.
 
(Óli Björn er ekki bara formaður Grindavíkur heldur einnig skífuþeytir í Röstinni í kvöld…fagmaður)
 
(Stuðningsmaður Stjörnunnar fór vel merktur á Reykjanesbrautina áleiðis til Grindavíkur að styðja sína menn)
 
(Meira en klukkutíma fyrir leik var komin heljarlöng röð fyrir utan Röstina í Grindavík…stemmningin hér er mögnuð, þetta verður eitthvað gott fólk)
 
(Hann er mættur í hús, Sindra-Stáls bikarinn sjálfur fer á loft í kvöld)
 
– Dómarar kvöldsins eru Sigmundur Már Herbertsson, Jón Guðmundsson og Kristinn Óskarsson.
 
– Nú eru 45 mínútur til leiks í Röstinni og löngu orðið uppselt.  
Fréttir
- Auglýsing -