spot_img
HomeFréttirNjarðvík Íslandsmeistari í unglingaflokki

Njarðvík Íslandsmeistari í unglingaflokki

Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla eftir skemmtilega viðureign við nágranna sína í Keflavík. Lokatölur urðu 84-70 þar sem Elvar Már Friðriksson var valinn leikmaður leiksins en kappinn endaði með 29 stig og 12 stoðsendingar. Hjá Keflavík átti Snorri Hrafnkelsson prýðisleik með 20 stig og 9 fráköst.
 
Það kom engum á óvart að baráttan var í fyrirrúmi í úrslitaleik sem þessum enda fornir fjendur og nágrannar að mætast. Villurnar hrönnuðust upp fljótt en bæði Snorri og Maciek Baginski fengu snemma tvær villur. Jafnt var á flestum tölum til að byrja með en undir lok fyrsta leikhluta náðu Keflvíkingarnir frumkvæðinu, þá sérstaklega vegna góðs leiks þeirra Snorra og Andra Þórs Skúlasonar sem léku teig þeirra grænu illa oft og tíðum. Staðan 22-17 Keflavík í vil eftir fyrstu lotu.
 
Öll stemmingin var með Keflavík í byrjun annars leikhluta sem gengu á lagið og komust í 27-19 með góðri hraðupphlaupskörfu frá Snorra eftir stoðsendingu Vals Valssonar. Lítið gekk hjá Njarðvíkingum þessa stundina, þá sérstaklega Oddi Birni Péturssyni, sem virtist gera allt rétt nema koma boltanum ofaní trekk í trekk. Það var ekki fyrr en fyrrnefndur Elvar tók af skarið og hóf þriggja stiga regn að þeir grænu fóru að ná áttum. Hann skoraði 13 af síðustu 16 stigum Njarðvíkur í fyrri hálfleiknum (átti stoðsendinguna á Óla Ragnar Alexandersson sem skoraði hin 3 stigin) en síðustu 3 komu af vítalínunni eftir að Valur Orri hafði brotið á honum í skoti um leið og bjallan glumdi. Njarðvíkingar komnir yfir 42-41 þegar blásið var til leikhlés.
 
Baráttan hélt áfram í byrjun seinni hálfleiks en hins vegar í stöðunni 49-45 skiptu verðandi Íslandsmeistarar hreinlega um gír. Á fjögurra mínútna kafla smelltu þeir í 17-3 áhlaup og breyttu stöðunni í 66-48 með mögnuðum leik þar sem góð liðsvarnarvinna var kveikjan ásamt samstilttu átaki í sókn. Keflvíkingar náðu rétt að klóra í bakkann undir lok leikhlutans en staðan 66-51 eftir þriðja leikhluta.
 
Njarðvíkingar héldu vel á spöðunum í byrjun fjórða leikhluta og í raun gerðu út um leikinn með þriggja stig körfu frá Maciek þegar 8 mínútur voru eftir og staðan 71-55. Keflvíkingar náðu tvívegis að minnka muninn í 12 stig en komust ekki nær og hömpuðu grannar þeirra í Njarðvík verskuldað Íslandsmeistaratitlinum í leiks loks.
 
Hjá Njarðvík bar sóknarframlag Elvars Márs af en auk stiganna 29 var hann með 12 stoðsendingar og kom því beint að 22 af 32 körfum þeirra utan að velli. Oddur Birnir Pétursson átti einnig prýðisleik í vörn og fráköstum þó að skotnýtingin hafi ekki verið uppá marga fiska þá setti hann niður mikilvægar körfur í leiknum. Þá ber að nefna þátts Óla Ragnars Alexanderssonar en hann átti glimrandi leik með 8 stig, 6 fráköst, 5 stolna og 4 stoðsendingar.
 
Hjá Keflvíkingum átti Snorri Hrafnkelsson afbragðsleik, þá sér í lagi í fyrri hálfleik en virtist varla geta klikkað á skoti á tímabili. Andri Þór og Andri Daníelsson áttu einnig fína spretti með 10 og 12 stig og 7 og 6 fráköst en miklu munaði um að Valur Orri komst lítið í takt við leikinn í seinni hálfleik en endaði þó með 15 stig. Þriggja stiga skotnýting Keflvíkinga var afleit en aðeins rataði 1 af 19 skotum liðsins fyrir utan línuna niður en skytturnar Ragnar Albertsson (9 stig og 13 fráköst) og Hafliði Brynjarsson voru 0 af 12 í þriggja stiga skotum.
 
Dómarar leiksins voru þeir Eggert Þór Aðalsteinsson og Georg Andersen.
 
Umfjöllun/ FFS
Mynd/ AR
  
Fréttir
- Auglýsing -