Yngvi Gunnlaugsson hefur tekið við kvennaliði KR í Domino´s deildinni en hann gerði nýverið tveggja ára samning við félagið. Yngvi tekur því við silfurbúi Finns Stefánssonar sem nýverið var ráðinn þjálfari karlaliðs KR.
„Já ég tek við mjög góðu búi og líst vel á hópinn,“ sagði Yngvi þegar Karfan.is náði tali af þjálfaranum. „Vonandi verðum við með svipað lið og í fyrra. Það hafa engar breytingar orðið enn á hópnum enda er ég nýtekinn við og aðeins búinn að hitta hópinn einu sinni ásamt því að vera í sambandi við leikmenn og taka á þeim stöðuna. Það virðast allir jákvæðir og spenntir fyrir því sem koma skal,“ sagði Yngvi og segir það gaman að takast á við nýja verkefnið.
„Liðið hafnaði í 2. sæti á síðasta tímabili svo eitthvað geta þær, við erum samt á ákveðnum tímamótum því þetta lið er frekar yngra en KR hefur verið með undanfarin ár, þar eru ákveðin tækifæri í því að byggja upp ný lið,“ sagði Yngvi sem verður áfram viðriðinn yngriflokkastarf félagsins.
„Ég held áfram þar sem frá var horfið, ég var ráðinn í fyrra með áherslu á kvennastarfið og við höldum því bara áfram.“