Logi Gunnarsson lokaði nýverið tímabili sínu með Angers í Frakklandi þar sem hann spilaði í vetur í NM1 deildinni. Angers endaði tímabilið í 12. sæti. Logi var að spila ágætis bolta, endaði tímabilið með rúm 12 stig á leik en þess má geta að stigahæsti leikmaður deildarinnar var með 18 stig á leik.
”Ég er ágætlega sáttur með eigin frammistöðu en ekki nátturúlega ekki sáttur með að lenda í 12 sæti af 18 liðum. Við vorum með yngsta liðið í deildinni og náðum ekki að klára marga leiki vegna reynsluleysis. Okkur gekk virkilega illa á útivelli en unnum flesta heimaleikina okkar. Varðandi framhaldið þá vilja þeir halda mér en þeir gátu ekki boðið mér það sem ég vildi og ég mun því ekki koma aftur hingað. Það er eingöngu einn Evrópumaður í hverju liði leyfður hér þannig að það eru ekki mörg sæti í boði í deildinni, en það kemur bara í ljós á næstu vikum hvort ég fæ eitthvað hér í Frakklandi sem henta mér og fjölskyldunni. ” sagði Logi við Karfan.is nú í dag.
Nú fer að síga á seinni hlutann hjá Loga í atvinnumennskunni en hann er þó hvergi á leiðinni heim þó kappanum langi að sjálfsögðu að klára heima fyrir í Njarðvíkinni. Þannig að spurningin er þá hvað er á döfinni á næsta ári þar sem að hann mun ekki verða hjá Angers.
“Það eru vonandi nokkur ár í það að ég komi heim. Okkur leið vel hérna í Frakklandi og ég var ánægður að spila hér körfuboltalega séð. Ef ekkert áhugavert kemur fljótlega þá er alveg möguleiki að snúa tilbaka til Svíþjóðar.” sagði Logi að lokum.