Jón Arnór og félagar í Zaragoza munu ekki koma til með að ríða feitum frá Madrid í kvöld eftir að hafa verið leiddir til slátrunar í öðrum leik liðanna í dag. 93:65 var lokastaða leiksins og aldrei var vafi á því hverjir færu með sigur í þessum leik. Real léku við hvurn sinn fingur, hittu vel og voru létt leikandi með hugguleg tilþrif. Á meðan gekk ekkert upp hjá Zaragoza í leiknum og því fór sem fór.
Okkar maður setti ekki niður stig í dag og en tók 4 fráköst og gaf 1 stoðsendingu. Staðan í einvíginu er því orðin 2-0 fyrir Real Madrid og þurfa þeir aðeins einn sigur í viðbót til að komast í úrslita einvígið. Nú færist einvígið yfir til Zaragoza og næsti leikur er á þriðjudag og við hjá Karfan.is munum verða á staðnum og vera með myndir og jafnvel eitthvað annað góðgæti frá leiknum.