Í dag varð ljóst að Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Keflavíkur, mun ekki framlengja samning sinn við félagið en þetta kemur fram á heimasíðu Keflavíkur í dag.
Á síðu Keflvíkinga segir ennfremur:
Samningaviðræður milli Keflavíkur og Pálínu hafa staðið yfir í talsverðan tíma og varð félaginu fljótlega ljóst að erfitt yrði að verða við óskum leikmannsins auk þess sem hennar hugur virtist stefna annað. Pálína gaf að lokum andsvar við tilboði Keflavíkur í dag með þeim rökum að hún vildi takast á við nýjar áskoranir en þakkaði félaginu þó um leið fyrir þau 6 góðu ár sem hún lék með liðinu. Hún vildi þó ekki gefa upp hver hennar næsti áfangastaður yrði.
Keflavík vill nota tækifærið og þakka Pálínu fyrir þau 6 ár sem hún hefur leikið með liðinu. Á þessum tíma hefur liðið verið sigursælt og unnið fjölda titla, líkt og það gerði áður en Pálína kom til liðsins og líkt og félagið mun gera um ókomin ár. Það þarf vart að tíunda það fyrir stuðningsmönnum félagsins að innan raða Keflavíkur er fullt af ungum og bráðefnilegum leikmönnum sem munu án efa sjá þetta sem tækifæri til að láta ljós sitt skína. Það er því von Keflavíkur og trú að aðrir leikmenn liðsins komi til með að sanna hið fornkveðna, að maður komi í manns stað!
www.keflavik.is
Mynd/ [email protected]