Draumurinn um atvinnumennsku er orðinn að veruleika hjá landsliðsmanninum Ægi Þór Steinarssyni en hann hefur gert eins árs samning við Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni. Þar hittir hann fyrir í brúnni Peter Öqvist þjálfara Sundsvall og íslenska landsliðsins sem og landsliðsmennina Jakob Örn Sigurðarson og Hlyn Bæringsson. Eftir námsdvöl í Bandaríkjunum við nokkuð ólíkt loftslag en tíðkast í Sundsvall kvaðst Ægir aðeins þurfa góða úlpu og þá væri hann klár!
„Þetta er frágengið, eins árs samningur og barnæskudraumurinn að rætast, öll vinnan sem maður hefur lagt á sig er að skila sér og ég kominn í aðstæður sem mig hefur alltaf dreymt um. Þá er ekki leiðinlegt að fara í lið þar sem maður þekkir bæði leikmenn, þjálfara og kerfin svo ég er gríðarlega sáttur,“ sagði Ægir í samtali við Karfan.is í kvöld. Aðspurður hvort hann vissi hverslags frost gæti gert í Sundsvall svaraði Ægir:
„Svo lengi sem maður er ánægður körfuboltalega séð þá er ég sáttur, ég finn mér bara góða úlpu og þá er ég klár.“
Þrír leikmenn úr Grafarvogi hafa nú farið úr skóla í Bandaríkjunum, Haukur Helgi Pálsson fór úr Maryland og hélt til Manresa á Spáni, Tómas Heiðar Tómasson yfirgaf Newberry og gekk aftur í raðir Fjölnis en mun leika með Þór Þorlákshöfn næsta tímabil og Ægir hefur einnig sagt skilið við Newberry og heldur á leið í atvinnumennskuna. Enginn þeirra lauk námi svo við stóðumst ekki mátið og inntum Ægi eftir því hvort þeir væru bara sleipir á parketinu en ekki á bókina?
„Þetta er bara bunch of Punks hérna í Grafarvogi,“ sagði Ægir léttur á manninn. „Markmiðið mitt er þó engu að síður að ljúka gráðunni, pælingin er líka sú að skólarnir verða alltaf til staðar og þetta var tækifæri sem ég gat ekki sleppt, þ.e. að semja við Sundsvall.“
Þegar út til Sundsvall verður komið mun Ægir vafalítið verða fljótur að aðlagast aðstæðum með þá Peter, Hlyn og Jakob Örn á staðnum. „Það eru tveir pabbar þarna í Kobba og Hlyn og með Peter sem þjálfara þá er maður í góðum höndum svo ég er í skýjunum yfir þessum aðstæðum.“