Ægir Þór Steinarsson, leikmaður Sundsvall, fer að öllum líkindum ekki með íslenska landsliðinu í körfuknattleik í keppnisferðalagið til Kína hinn 16. júlí. Ægir braut bein í rist fyrir skömmu og verður því frá keppni næstu vikurnar. www.mbl.is greinir frá.
Landsliðið kom saman til æfinga á mánudag en þar vantaði þó Finn Atla Magnússon sem glímir við bakmeiðsli, og Loga Gunnarsson sem mætir til æfinga á morgun. Æfingahópurinn sem Peter Öqvist þjálfari valdi telur 21 mann en 12 leikmenn fara til Kína þar sem landsliðið mætir heimamönnum, Makedóníu og Svartfjallalandi, dagana 19.-22. júlí, á feikisterku æfingamóti fyrir undankeppni EM í ágúst.