spot_img
HomeFréttirÓlafur Rafnsson lagður til hinstu hvílu í dag

Ólafur Rafnsson lagður til hinstu hvílu í dag

 Ólafur E. Rafnsson verður lagður til hinstu hvílu í dag en útför Ólafs verður gerð frá Hallgrímskirkju. Ólafur eins og flestir vita varð bráðkvaddur í Swiss þann 19. júní sl. Um leið og Karfan.is kveður okkar allra mesta fulltrúa íþróttarinnar þá um leið vottum við fjölskyldu Ólafs okkar dýpstu samúð á þessum erfiða tíma.  Myndin sem við birtum er frá Einari Fal Ingólfssyni þar sem Ólafur er í baráttunni  við Axel Nikulásson Keflvíking með félaga sínum Ívari Ásgrímssyni. Myndina teljum við táknræna þar sem jú Ólafur var mest allt sitt líf í baráttunni fyrir körfuna. Blessuð sé minning Ólafs.
 
 
Ólafur E. Rafnsson fæddist í Hafnarfirði 7. apríl 1963. Hann varð bráðkvaddur í Sviss 19. júní 2013.

 

Foreldrar hans eru Rannveig E. Þóroddsdóttir leikskólakennari, f. 1. febrúar 1936 og Rafn E. Sigurðsson, fv. forstjóri Hrafnistu, f. 20. ágúst 1938. Systkini Ólafs eru: 1) Sigþór R. útgerðartæknir, f. 23. apríl 1961, synir hans og Sigríðar Andersdóttur leikskólakennara, f. 24. október 1963, (skilin) eru Anders Rafn og Óskar. 2) Elísabet snyrtifræðingur, f. 7. apríl 1963, börn hennar og Bergþórs I. Leifssonar rafeindavirkja, f. 10. júlí 1964, (skilin) eru Erna og Fannar Logi.

 

Hinn 1. júlí 1989 kvæntist Ólafur eftirlifandi eiginkonu sinni, Gerði Guðjónsdóttur endurskoðanda, f. 24. júlí 1963. Foreldrar hennar eru Auður Jörundsdóttir, fv. skrifstofumaður, f. 16. júní 1923 og Guðjón Júlíusson pípulagningameistari, f. 1. október 1925, d. 30. nóvember 1980. Börn Ólafs og Gerðar eru: Auður Íris, f. 29. ágúst 1992, háskólanemi, Sigurður Eðvarð, f. 29. nóvember 1997, framhaldsskólanemi og Sigrún Björg, f. 19. júní 2001, grunnskólanemi.

 

 
Ólafur útskrifaðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1982, hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1990 og hóf þá störf sem fulltrúi hjá hjá Lögmönnum sf. í Hafnarfirði. Hann hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdóm á árinu 1993. Í febrúar 1994 stofnaði hann ásamt Inga H. Sigurðssyni héraðsdómslögmanni Lögmenn
 
Hafnarfirði ehf. Á árinu 1996 varð Bjarni S. Ásgeirsson hæstaréttarlögmaður meðeigandi í stofunni. Ólafur sat í stjórn Lögmannafélags Íslands á árunum 2003-2004. Árið 2012 lauk Ólafur meistaragráðu í »European Sport Governance« frá Institut d’Études Politiques de Paris. Ólafur hóf ungur að æfa íþróttir, æfði hjá FH bæði fótbolta og handbolta en á unglingsárunum hóf hann að æfa körfubolta með Haukum. Með Haukum varð hann bikarmeistari á árunum 1985 og 1986 og Íslandsmeistari 1988. Ólafur spilaði nokkra leiki með landsliðinu í körfubolta. Ólafur kom að þjálfun yngri flokka í körfubolta sem og meistaraflokka karla og kvenna hjá Haukum. Hann var einn af þeim sem komu á fót skipulögðum æfingum í hjólastólakörfubolta og var þjálfari þar um tíma. Ólafur sat í stjórn körfuknattleiksdeildar Hauka 1989-1990. Frá 1990-2006 sat hann í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands og þar af formaður frá 1996. Hann var kjörinn forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands árið 2006. Ólafur sat í stjórn Evrópska körfuknattleikssambandsins (FIBA Europe), frá árinu 2002 og var kjörinn forseti þess árið 2010. Frá þeim tíma sat hann jafnframt í miðstjórn Alþjóðlega körfuknattleikssambandinu (FIBA World). Ólafur var í ótal vinnuhópum, nefndum og ráðum á vegum Körfuknattleikssambands Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Evrópska- og Alþjóða körfuknattleikssambandsins.

 

Útför Ólafs verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag, 4. júlí 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Fréttir
- Auglýsing -